Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:33:54 (5605)

2000-03-21 23:33:54# 125. lþ. 83.5 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:33]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess áðan að ég bæri fullt traust til lögreglunnar. Hins vegar finnst mér það áhyggjuefni ef þetta er viðhorfið hjá hv. þm., að við eigum einfaldlega að treysta lögreglunni og ríkislögreglustjóra, fela honum þetta vald í hendur án þess að byggja inn í lögin eftirlit og aðhald gagnvart honum fyrir hönd almennings. (Gripið fram í: Hver er hann, þessi mæti lögreglumaður sem þú ert að tala um?) Við erum að tala um embættið og embættinu er falin ábyrgð á þessum upplýsingagrunni sem skráir matskennda þætti eins og hvort einstaklingur er talinn ofbeldishneigður eða líklegur til að fremja skemmdarverk, sem eru væntanlega pólitísk í eðli sínu. Ef við ætlum að gangast inn á að fela ríkislögreglustjóra slíkt vald þá þurfum við að gæta þess að hann fái aðhald. Það aðhald á lögum samkvæmt að koma frá tölvunefnd. Tölvunefnd telur ekki nægilega langt gengið í þessu efni og væntir þess að fastar verði kveðið á um þetta í reglugerð sem fylgir lögunum. Ég tel mikilvægt að allshn. taki það til endurskoðunar fyrir 3. umr. málsins, hvort ekki sé unnt að verða við þessum óskum, að vísu óbeinu, sem lesa má í umfjöllun tölvunefndar um þetta efni.