Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:35:43 (5606)

2000-03-21 23:35:43# 125. lþ. 83.5 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:35]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar þegar hann ræddi um umsögn tölvunefndar varðandi þetta frv. að þar hefðu komið fram áhyggjur um að fjármagn til reksturs starfseminnar væri ekki nægjanlegt. Þetta vakti einmitt líka athygli mína á þessum sama fundi. Mig minnir að þar hafi komið fram að þeir hefðu eingöngu 4,2 millj. kr. til ráðstöfunar á síðasta ári. Þess vegna fór ég að skoða þetta mál.

Við höfum líka verið að skoða annað frv. sem er frv. til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í fskj. frá fjmrn. með því frv. kemur fram að á þessu ári er fjármagn til rekstrar tölvunefndar, sem verður síðan Persónuvernd, 7 millj. kr. En fyrirhugað er að í það fari um 42 millj. kr. þegar Persónunvernd hefur tekið yfir þau verkefni sem henni er ætlað samkvæmt frv. um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar kemur fram mikil efling á þeirri starfsemi sem Persónuvernd mun hafa með höndum, m.a. varðandi Schengen-upplýsingakerfið, þ.e. hennar þætti í því máli. Áhyggjur mínar og vonandi tölvunefndar, Persónuverndar í framtíðinni, minnkuðu við að lesa þessa umsögn.