Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:41:30 (5608)

2000-03-21 23:41:30# 125. lþ. 83.5 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst til að ítreka að mikilvægt er að fyrir 3. umr. þessa máls verði 18. gr. tekin til umfjöllunar. Ég vek athygli á því að tölvunefnd eða Persónuvernd hefur samkvæmt lagagreininni einungis heimild til að koma ábendingum á framfæri. Hún hefur ekki rétt til að fara fram á að breytingar verði gerðar. Ef einstaklingur sem kvartað hefur til tölvunefndar, hefur óskað eftir að fá upplýsingar um hvað skráð er um hann sjálfan í gagnagrunninum og telur eitthvað ámælisvert í því efni og tölvunefnd er sama sinnis, þá getur hún komið kvörtun á framfæri en ríkislögreglustjóri þarf ekki að fara að þeim ábendingum. Ég tel að tölvunefnd þurfi að fá eins konar vald í þessu efni.

Einstaklingurinn getur vissulega leitað réttar síns en það gerir hann þá fyrir dómstólum. Þeir sem hafa þurft að sækja mál sín fyrir dómstólum vita að málsmeðferð getur kostað mikla peninga. Þar hefur verið nefnd ein millj. kr. Það getur kostað eina millj. kr. að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Ég tel að þarna sé nokkuð sem þurfi að hyggja að. Það getur vel verið að kunni að vera einhverjar málamiðlanir í þessu, t.d. tryggð gjafsókn svo dæmi sé tekið, að einstaklingurinn geti fengið tryggingu fyrir gjafsókn. Eðlilegast hefði ég þó talið að tölvunefnd hefði vald til að knýja lögreglustjóraembættið til að gera þær breytingar sem hún telur að þurfi. Þetta vildi ég árétta, herra forseti, áður en þessari umræðu lýkur.