Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 13:38:50 (5613)

2000-03-22 13:38:50# 125. lþ. 84.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 125. lþ.

[13:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að það samrýmist mjög illa pólitískri stöðu Íslands sem er ekki aðili að Evrópusambandinu, og ætlar sér vonandi ekki að verða, að gerast aðili að Schengen-samningnum sem er búið að innlima í Evrópusambandið og að hluta til í fyrstu stoð þess og undir yfirþjóðlegt vald. Þessi gerð er hluti af því að mynda sambandsríki í Evrópu, Evrópusambandið. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að gerast aðili að því sambandsríki heldur leysa samskipti sín við samningum við það.

Í öðru lagi mun hljótast af þessu mikill kostnaður, fjárfestingarkostnaður svo nemur milljörðum og umtalsverður rekstrarkostnaður.

Í þriðja lagi er ástæða til að hafa áhyggjur af vaxandi flæði fíkniefna þegar persónueftirlit verður fellt niður á þessum stóru landamærum.

Í fjórða lagi eru þarna áhyggjuefni fyrir íslenska ferðaþjónustu og fleira mætti nefna sem gerir að að verkum að það er að mínu mati ekki fýsilegur kostur fyrir okkur Íslendinga að gangast inn á þessa lausn.

Ég segi nei.