Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 13:54:25 (5624)

2000-03-22 13:54:25# 125. lþ. 84.6 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þingmenn þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þau tvö frv. sem verða nú greidd atkvæði um og leiðir af Schengen-samningnum. Með þessum lagafrv. er verið að færa mikið vald undir embætti ríkislögreglustjóra án þess að veita embættinu eðlilegt aðhald. Ríkislögreglustjóri á að sjá til þess að þættir sem eru mjög matskenndir eru færðir inn í evrópskan öryggisgrunn. Þar er t.d. um að ræða meinta ofbeldishneigð eða hvort einstaklingar séu líklegir til skemmdarverka. Aðhald er ekki nægilegt frá tölvunefnd eða Persónuvernd, þar er allt óunnið og á að koma í reglugerðum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á Alþingi hafa reynt að hafa áhrif á vinnslu málsins og munu að sjálfsögðu freista þess fram á síðustu stundu, en við erum eftir sem áður andvíg pakkanum í heild sinni.