Leigulínur til gagnaflutnings

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:09:09 (5625)

2000-03-22 14:09:09# 125. lþ. 85.1 fundur 395. mál: #A leigulínur til gagnaflutnings# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Síðastliðið vor lofaði ríkisstjórnin breytingum á gjaldskrá Landssíma Íslands hf. vegna margendurtekinna kvartana yfir miklum kostnaði ...

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. um að gefa betra hljóð í salnum.)

Herra forseti, ég hygg að þessar kvartanir hafi verið --- ekki kvartanir forseta --- hafi verið vegna gjaldskrár Landssímans og yfir miklum kostnaði landsbyggðarinnar við gagnaflutninga og almenna þátttöku í upplýsingasamfélaginu. Við endurskoðun gjaldskrár var viðurkennt af hálfu Landssímans að verð fyrir lengri leiðir var of hátt reiknað og að landsbyggðin hefði þar með borgað of mikið fyrir þá þjónustu. Nú þekki ég ekki til vinnubragða eða viðmiðana sem Landssíminn notar til að finna út rétt verð fyrir einstaka þjónustuþætti. En hitt stendur eftir að enn er allt að fimmfaldur munur á leigulínum og vegalengdir frá Reykjavík ráða gæfu manna í þessum efnum.

Ég lít svo á, herra forseti, að af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi verið gefið pólitískt loforð um að þessi kostnaður yrði jafnaður. Annars væri til lítils að setja upp áætlanir um fjarvinnsluverkefni til að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig ætti að leggja fram tillögur þar að lútandi sem m.a. gerðu ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar yrðu nýttir til hins ýtrasta, eins og segir í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Það hefur komið fram, herra forseti, að hæstv. félmrh. virðist skilyrða stuðning sinn við að jöfnuði verði komið á í þessum efnum með áformum samgrh. um sölu Landssímans.

Þegar menn setja sér pólitísk markmið þarf oft að uppfylla þau með pólitískum ákvörðunum og aðgerðum. Tæknimenn Landssímans hafa hingað til verið ófærir um það, eðlilega. Það þekkjum við sem höfum hreyft þessum málum hér á Alþingi á undanförnum árum. Ég hef því lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. samgrh.:

Telur ráðherra að jafna þurfi aðstöðu þeirra sem þurfa eða vilja nýta sér möguleika nýrrar samskiptatækni til fjarkennslu, fjölmiðlunar eða fjarvinnslu, hvað varðar verð leigulína til gagnaflutninga?

Í öðru lagi: Hvaða færar leiðir sér ráðherra til slíks aðstöðujöfnuðar?