Leigulínur til gagnaflutnings

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:20:09 (5628)

2000-03-22 14:20:09# 125. lþ. 85.1 fundur 395. mál: #A leigulínur til gagnaflutnings# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir viðbrögðin við svari mínu, en hlýt að vekja athygli á því sem alltaf kemur fram hjá hv. þm. Samfylkingarinnar, þ.e. hin sérkennilega afstaða til Landssíma Íslands hf. þegar talað er um bergþurs í því líkingamáli og notað á og gegn þessu fyrirtæki sem sinnir þjónustu um allt land. Og hver er árangurinn af starfi þessa fyrirtækis? Hver er árangurinn af starfi fólksins sem vinnur hjá Landssímanum? Hann er mældur þannig af OECD að símgjöld á Íslandi séu þau lægstu í veröldinni. Bergþursinn nær þessum árangri, eins og Samfylkingin kallar Landssímann. Ég er mjög undrandi satt að segja á slíkri afstöðu til fyrirtækisins og velti því mjög fyrir mér hvers vegna þetta er. Það mætti kannski halda að þetta væri einhvers konar minnimáttarkennd eða tilraun til þess að víkja sér undan því að halda eitthvað sérstaklega upp á ríkisfyrirtæki, að hinir gömlu sósíalistar snúist svona til einkennilegrar áttar þegar þeir reyna allt hvað þeir geta til að breiða yfir hið gamla nafn og númer.

Svo ég snúi mér að öðru vil ég minna á að gagnaflutningar í gegnum ISDN-kerfið eru á sama verði alls staðar á landinu. Það er hluti af hinni nýju löggjöf að gera þá kröfu. Nú er verkefnið það að byggja upp þessa þjónustu um landið allt og það eru þau áform sem ég hef haft uppi.

Ég vil að lokum, herra forseti, taka skýrt fram að sem ráðherra fjarskiptamála hef ég lagt mikla áherslu á þá grundvallarstefnu mína að fjarskipti eigi að vera aðgengileg fyrir alla, ódýr og örugg. Því til stuðnings hef ég þegar lagt á ráðin með að aukinn kraftur verði settur í það verkefni að gera öllum heimilum landsins kleift að fá ISDN-línu fyrr en þegar hefur verið ráðgert. Einnig mun ég leggja áherslu á það markmið sem sett er fram í stjórnarsáttmálanum að tekjum af sölu ríkisfyrirtækja verði m.a. varið til að efla upplýsingasamfélagið og þar með að tryggja jafna aðstöðu landsmanna á fjarskiptasviðinu.