Uppbygging vega á jaðarsvæðum

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:31:53 (5632)

2000-03-22 14:31:53# 125. lþ. 85.2 fundur 423. mál: #A uppbygging vega á jaðarsvæðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að vekja athygli á samgöngumálum landsbyggðarinnar. Samgöngur í hinum dreifðu byggðum eru mjög mikilvægar en við vitum að safn- og tengivegir eru víða í ákaflega slæmu ásigkomulagi. Það kemur sérstaklega fram á vorin þegar frost fer úr jörðu. Eftir þessum vegum eru mikir flutningar, bæði fyrir landbúnað og á fólki til og frá vinnu og í skóla. Oft á tíðum jaðrar það við barnaverndarmál hvað vegirnir eru í slæmu ásigkomulagi þar sem aka þarf börnum í skóla allt upp í 60--70 km leið.

Við viljum að fólk haldi áfram að búa í hinum dreifðu byggðum. Því er vert að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki athugandi hvort fjármagnið mundi ekki nýtast betur í þessa vegi ef sveitarfélögin fengju að sjá um framkvæmdirnar.