Uppbygging vega á jaðarsvæðum

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:34:24 (5634)

2000-03-22 14:34:24# 125. lþ. 85.2 fundur 423. mál: #A uppbygging vega á jaðarsvæðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans hér og þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu vegna fsp. minnar.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hefur Byggðastofnun skilað enn einni skýrslunni um nýjar áherslur í byggðamálum þar sem landinu hefur verið skipt niður í atvinnuþróunarsvæði eftir því hve mikil vandamálin eru. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að það vantar ekki fleiri skýrslur í byggðaþróunar- og byggðamálaumræðu á Íslandi. Það sem vantar eru einhverjir peningar og það vantar aðgerðir.

Hér hefur komið fram að heildarkostnaður við að byggja upp safn- og tengivegi svo að viðunandi sé er í kringum 6 milljarða kr. Í vegáætlun nú eru ætlaðar til þess um 150 millj. kr. á ári. Það sjá náttúrlega allir að þarna eru himinn og haf á milli. Ég veit ekki á hvaða ári framkvæmdum lýkur ef féð verður ekki meira en þarna.

Spurning mín var einfaldlega um hvort staðið yrði við þær ályktanir sem eru í þál. um byggðamál og meira fé sett í þessa vegagerð. Sauðfjárbændum hefur t.d. verið sagt að þeir geti aldrei lifað af búskap sínum og verði að stunda aðra vinnu með. Þeir þurfa þá að komast eftir vegunum til að sækja vinnu til næstu þéttbýlisstaða ef þessi stefna á að ganga fram.

Það er hárrétt sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir nefndi hér áðan. Það eru ekki bara bændur sem þurfa að keyra til vinnu heldur þarf að aka börnum eftir þessum vegum í skóla dag hvern. Það er langt frá því að margir af þeim tengi- og safnvegum sem þarna er ekið eftir séu mannsæmandi. Þetta er kannski eitt brýnasta málið sem taka þarf á í hinum dreifðu byggðum landsins.

Ég endurtek, herra forseti, þakkir til hæstv. samgrh. fyrir svar hans og þeirra þingmanna sem tóku þátt í umræðunni.