Kostnaður við fjarkennslu

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:39:14 (5636)

2000-03-22 14:39:14# 125. lþ. 85.3 fundur 424. mál: #A kostnaður við fjarkennslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Fjarkennsla verður sífellt mikilvægari þáttur í skólastarfi, einkum fyrir þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki nýtt sér tilboð um dagskóla eða hefðbundið nám. Fjöldi Íslendinga stundar nú nám við skóla fjarri heimilum sínum, jafnvel við skóla erlendis. Hluti nemenda sem stundar nám við skóla hér á landi er búsettur erlendis.

Fjarkennsla hefur líka reynst góður kostur fyrir skóla sem ekki hafa getað ráðið til sín kennara í einstökum greinum. Þeir hafa nýtt fjarkennslu til að halda úti námi í áföngum sem ella hefði þurft að fella niður og nemendur orðið án.

Spurning mín til hæstv. menntmrh. er um hvaða reglur gildi um greiðslu kostnaðar vegna kaupa á svona fjarkennsluáföngum, þ.e. þegar skólinn stendur við gefin fyrirheit um heildstætt nám. Upplýsingar mínar benda til þess að í einhverjum tilfellum séu nemendur látnir greiða a.m.k. helming kostnaðar þó að um hefðbundið framhaldsskólanám sé að ræða en þar á kennslukostnaður lögum samkvæmt að vera nemanda að kostnaðarlausu. Með nýrri aðalnámskrá er sett fram það markmið að leitast verði við að tryggja að hver einstaklingur geti fundið nám við hæfi innan framhaldsskólans og að námshraði miðist að nokkru við eigin getu, að afkastamiklir nemendur geti hraðað náminu.

Það mun einkum vera í tilfellum sem þessum, herra forseti, þegar nemendur vilja finna nám við hæfi eða hraða námi sínu, að jafnvel hefur verið talið, a.m.k. einhvers staðar, að nemendur ættu að bera kostnaðinn algjörlega sjálfir ef þeir taka áfangann í fjarnámi. Þannig virðast þessir frábæru möguleikar til að jafna aðstöðu til náms geta snúist upp í fjárhagslega mismunun nemenda.

Í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar er sett fram það markmið að möguleikar fjarkennslu verði að fullu nýttir og það er alveg nauðsynlegt til að mæta mismunandi þörfum og aðstæðum, herra forseti.

,,Hátt hlutfall réttindalausra kennara eða leiðbeinenda við kennslu í framhaldsskólum, einkum á landsbyggðinni,`` var ein af morgunfréttum Ríkisútvarpsins. Með markvissri fjarkennslu væri líka hægt að bæta úr þeirri stöðu. En það má þá ekki verða til að mismuna nemendum fjárhagslega. Það hlýtur að vera hlutverk menntmrh. að tryggja að nemendum sé ekki mismunað og því er þessi fsp. fram komin.