Tungutækni

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:46:21 (5640)

2000-03-22 14:46:21# 125. lþ. 85.4 fundur 464. mál: #A tungutækni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Sífellt fleiri hafa áhyggjur af því hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar eða verði gerðar til að tryggja stöðu íslenskunnar við þær tæknibreytingar að tölvur noti hið talaða orð til samskipta, það sem kallað er tungutækni. Átt er við að tölvur nái að skilja hið talaða orð og að hægt sé að gefa þeim munnleg fyrirmæli um hvað þær eigi að gera, að tölvur bæði skilji og noti tungumálið, hið talaða orð.

Það hefur komið fram, m.a. á nýafstöðnu nýsköpunarþingi Rannsóknarráðs og Útflutningsráðs, að unnið væri að því af miklum krafti að koma tungutæknilausnum á markað á allra næstu árum. Hvernig verður íslenskan gjaldgeng í upplýsinga- og samskiptasamfélaginu við slíkar aðstæður? Við þessar breytingar eru auðvitað þau tungumál sem flestir nota sem er fyrst og fremst verið að þróa. Til að íslenskan geti verið með þarf að tölvutaka tungumálið svo hægt sé að nota það í samskiptum manns og vélbúnaðar.

Íslenskt málsamfélag er lítið og um það hefur verið afar víðtæk samstaða með þjóðinni að tunguna þyrfti að efla. Nýsköpun málsins hefur verið mikil og afar jákvæð, það er hægt að segja allt á íslensku, og þannig viljum við hafa það. Þanþol málsins hefur reynst mjög mikið til þessa.

En nú virðist tæknin komin þangað að rétt sé að huga vel að því hvað er í farvatninu, hvaða nýjungar gætu ógnað okkar litla málsamfélagi og þar með því sem sumir hafa talið grundvöll þjóðernis okkar og sjálfstæðis. Því er mikilvægt að stjórnvöld fylgist vel með, haldi íslenskunni fram og geri sitt til að íslenskt talmál verði tölvutekið og því komið inn í viðeigandi staðla.

Spurningin er því þessi:

,,Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu ráðherra til að tryggja stöðu íslenskunnar við þær tæknibreytingar, sem verið er að þróa, að tölvur skilji mælt mál (tungutækni)?``

Herra forseti. Það væri líka upplýsandi ef hæstv. ráðherra segði frá hvernig stjórnvöld sjá þessa þróun og þátt íslenskunnar fyrir sér í næstu framtíð.