Tungutækni

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:54:01 (5642)

2000-03-22 14:54:01# 125. lþ. 85.4 fundur 464. mál: #A tungutækni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram síðast í máli hæstv. ráðherra, að auðvitað þarf að knýja fleiri en stjórnvöld til að takast á við þetta verkefni. Eins og ég gat um áðan í ræðu minni, það er stórt og mikið verkefni að halda íslenskunni til haga í því umróti sem er í heimi tækninnar og í öllum þeim möguleikum sem blasa við okkur blasa.

Það er alveg ljóst að í skýrslunni sem hæstv. ráðherra vísaði til kom vilji í ljós. Fyrirspurn mín laut að því hvernig og því hefur verið svarað. Ráðherra hefur farið yfir ákveðna hluti sem hann eða ráðuneyti hans eða stjórnvöld hafa með einum eða öðrum hætti tekist á við eða hrint í framkvæmd.

Ég velti því fyrir mér, af því að ráðherra talar um átak þegar á þessu ári og áform um tekjur af sölu ríkisfyrirtækja, hvort það er bundið, hvort ef ekki verður um tekjur af sölu ríkisfyrirtækja að ræða, hvort það þýðir þá að ekki verður farið í það sem þarf að gera, eða af hverju er þetta bundið svona saman? Er það til að gera sölu ríkisfyrirtækja meira aðlaðandi í augum einhverra sem yrðu ella andsnúnir? Það er svolítið vont alltaf þegar hlutir eru bundnir svona saman.

Auðvitað verður það þannig og mér heyrist vera vilji til þess að það verður tekist á við þetta verkefni hvort sem ríkisfyrirtæki verða seld eða ekki. Það hlýtur að verða vegna þess að það er alveg ljóst að það er nauðsynlegt fyrir okkur að íslenskan haldi þeim sessi sem við viljum sjá að hún geri í heimi tækninnar í framtíðinni.