Tungutækni

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:56:02 (5643)

2000-03-22 14:56:02# 125. lþ. 85.4 fundur 464. mál: #A tungutækni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er alveg skýrt eins og fram kom í svari mínu áðan að við erum að vinna að þessu. Við höfum lagt fram bæði skýrslu um málið þar sem menn geta kynnt sér það viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir og einnig höfum við unnið verkefnaáætlun til að ná þeim markmiðum sem við teljum að setja beri í þessu efni. Síðan hefur það verið sett fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hluta af tekjum af sölu ríkisfyrirtækja skuli varið til þess að styrkja upplýsingatæknina og þetta verkefni er eitt af þeim.

Eins og menn vita þegar rætt er um fjármál ríkisins er um gífurlega stóran tekjustofn að ræða og ég held að öll þau verkefni sem hljóti viðurkenningu til að fá hluta af honum ættu að vera tiltölulega vel sett hvernig sem verður með sölu ríkisfyrirtækja, hvort selt verður mikið eða lítið. Ég held að mikil trygging sé fólgin í því að fá þá viðurkenningu sem felst í þessum þáttum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil vekja athygli á því að þarna er náttúrlega ekki verið að tala um nein sambærileg verkefni eins og t.d. borgarstjórinn í Reykjavík hefur nefnt að hún vilji selja Landsvirkjun og nota söluandvirðið til þess að byggja í Reykjavík ráðstefnumiðstöð og tónlistarhús. Það er ekkert endilega bundið við ríkið að menn ákveði að nota tekjur af sölu fyrirtækja í einhverjum ákveðnum tilgangi. Ég tel að það sé mikil viðurkenning þegar það er viðurkennt að upplýsingatæknin eigi að verða hluti af þeim verkefnum sem við viljum fjármagna þannig.

Vonandi verður það líka til þess að greiða fyrir sölu fyrirtækjanna. Ég held að þetta sé góður málstaður þannig að þetta falli allt saman og eigi eftir að skila góðum árangri.