Skráning afbrota

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:00:45 (5645)

2000-03-22 15:00:45# 125. lþ. 85.6 fundur 432. mál: #A skráning afbrota# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:00]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa þeirri skoðun minni að heildstæð afbrotafræðileg skráning er gífurlega mikilvægt verkefni sem leggur grunninn að því að finna leiðir til þess að berjast gegn og draga úr afbrotum. Ég hef því mikinn áhuga á þessu máli og tek undir með hv. fyrirpsyrjanda um það.

Málaskrá lögreglunnar er miðlæg og samræmd fyrir landið allt og í hana færa lögreglustjórar í öllum umdæmum upplýsingar um brot sem þar eru til rannsóknar. Málaskrá lögreglunnar var tekin í notkun hjá hluta lögregluembættanna til reynslu árið 1995. Frá 1. jan. 1998 eða í rúm tvö ár hafa öll embættin verið tengd málaskránni. Með færslum í málaskrána er stefnt að því að skrá öll brot og brotaflokka með samræmdum hætti og safna á einn stað upplýsingum sem nýtast við tölfræðilega úrvinnslu um þróun brota, stöðu mála o.fl. Ýmsar aðrar skrár eru tengdar málaskránni, svo sem dagbók lögregluliðanna og munaskrá.

Í byrjun þessa árs var tekin í notkun miðlæg efnaskrá til þess að eiga hverju sinni nákvæmt yfirlit yfir haldlögð fíkniefni í landinu og meðferð þeirra. Ríkislögreglustjóri hefur yfirumsjón með og viðheldur málaskrá lögreglunnar og öðrum miðlægum upplýsingakerfum eða skrám hjá lögreglu.

Á síðustu missirum hefur farið fram úttekt á ýmsum atriðum og úrvinnslu tölulegra upplýsinga sem varða fíkniefnamál. Um þessar mundir er verið að hleypa af stokkunum tölfræðilegri athugun á öllum ofbeldisbrotum síðasta árs. Þessar athuganir eru yfirgripsmiklar, þær ná yfir landið allt og hafa ekki verið unnar áður.

Ný samræmd og miðlæg málaskrá, sem er málaskrá ákæruvalds, var tekin í notkun til reynslu um síðustu áramót. Að undanförnu hafa fulltrúar dómsmrn., ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra rætt um úrvinnslu tölulegra upplýsinga sem stefnt er að með þessari málaskrá ákæruvaldsins og hvernig megi almennt bæta tölfræði um afbrot. Málaskrá ákæruvaldsins er framhald af málaskrá lögreglu og mun veita sérstaklega upplýsingar um afdrif mála eftir að þau berast ákæruvaldinu.

Loks vil ég vekja athygli á að unnið er að því að kanna refsidóma frá ákveðnu tímabili og skrá viðurlög við afbrotum fyrir tiltekna brotaflokka. Má efalaust draga einhverjar ályktanir af þeim niðurstöðum, svo sem um þróun á ákvörðun refsinga og hvaða áhrif þyngd refsinga hefur á brotatíðni.

Málaskrá lögreglu gegnir nú lykilhlutverki við öflun tölfræðiupplýsinga um fjölda mála hjá lögreglu og verður málaskrá ákæruvalds í nánum tengslum við hana. Ég hef mikinn áhuga á þessum málaflokki, eins og ég lýsti hér fyrr, og hef lagt áherslu á að þessar miðlægu skrár nýtist sem öflugt tæki við úrvinnslu tölfræðiupplýsinga. Til þess að ná því markmiði þarf að samræma þær skilgreiningar sem byggt er á við skráningu grunnupplýsinga um mál í málaskrá lögreglu og að öll lögregluembætti fái samræmd fyrirmæli um skráningu til þess að upplýsingar sem þaðan koma séu eins áreiðanlegar og kostur er.

Í lok síðasta árs fól ég ríkislögreglustjóra að fara ítarlega yfir öll álitaefni varðandi skráningu afbrota í málaskrá lögreglunnar og setja fram mótaðar og rökstuddar tillögur um skráningu og talningu brota svo og að annast þarfagreiningu á tölfræðilegum upplýsingum. Er nú unnið að þessu verki hjá ríkislögreglustjóra en í því starfi er m.a. litið til leiða sem farnar hafa verið á öðrum Norðurlöndum á þessu sviði.