Eftirlit á skilorði

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:20:17 (5653)

2000-03-22 15:20:17# 125. lþ. 85.8 fundur 434. mál: #A eftirlit á skilorði# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram hjá mér eru ýmsir þættir sem getið er um í skýrslunni sem skilað var frá þeirri nefnd sem þáv. hæstv. dómsmrh. skipaði en einnig í áliti umboðsmanns barna. Þar af er ýmislegt um eftirlit á skilorðstíma, þ.e. þeir sem hafa ekki fengið óskilorðbundna refsingu og þurfa að dvelja í fangelsum. En í almennum hegningarlögum er gert ráð fyrir að ungmenni sem brjóta af sér séu ekki dæmd til refsivistar nema um sé að ræða mjög alvarleg eða ítrekuð brot.

Samkvæmt ákvæðum laganna er heimilt að fresta því að gefa út ákæru, fresta því að ákveða refsingu eða fresta fullnustu refsingar gegn því að sá sem brotið hefur af sér gerist ekki sekur um brot á meðan á skilorði stendur.

Þetta er eitt af því sem umboðsmaður barna gerir að umtalsefni í niðurstöðum sínum og þar segir hún, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt framansögðu ber að mínu áliti að beita öllum tiltækum úrræðum til þess að koma í veg fyrir ungmenni, yngri en 18 ára, séu vistuð í fangelsum. Í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er gert ráð fyrir að ungmenni, sem brjóti af sér séu ekki dæmd til refsivistar nema um sé að ræða mjög alvarleg eða ítrekuð brot.``

Engu að síður er það niðurstaða umboðsmanns Alþingis að í þeim tilvikum sem skilorðinu er beitt, sem er sem betur fer í flestum tilvikum, ,,að mjög skorti á að samhliða almenna skilyrðinu sé beitt þeim sérstöku skilyrðum sem ráð er fyrir gert í 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga, þar á meðal vistun á meðferðarstofnunum.`` 57. gr. laganna heimilar að fresta því að gefa út ákæru og fresta því að ákveða refsingu eða fresta fullnustu refsingar gegn því almenna skilyrði að sá sem brotið hefur af sér gerist ekki sekur um brot á meðan á reynslutímanum stendur.

Þetta er tekið fyrir í skýrslunni sem skilað var til dómsmrh. þar sem sagt er:

,,Þá vekur nefndin athygli á því að ekki er algengt í dómum að frestun ákvörðunar eða fullnustu refsingar sé bundin skilyrði um að barn sæti eftirliti. Einnig virðist eftirlitið ekki vera virkt í þessum tilvikum þar sem dómar berast ekki til fullnustu fyrr en nokkrum vikum eða mánuðum eftir uppkvaðningu. Nefndin telur ástæðu til að kannað verði hvort ekki sé ástæða til að beita eftirliti í auknum mæli og með virkari hætti þegar refsing er skilorðsbundin með það að markmiði að veita barni stuðning til að það haldi ekki áfram á braut afbrota. Í þessu sambandi er ástæða til að endurskoða reglur um skilorðsdóma og fyrirkomulag eftirlitsins.``

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur þetta verið gert? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að reglurnar verði endurskoðaðar? Hafi þær verið endurskoðaðar, hvað felst í þeim?