Eftirlit á skilorði

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:27:20 (5655)

2000-03-22 15:27:20# 125. lþ. 85.8 fundur 434. mál: #A eftirlit á skilorði# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það úrræði að beita frekar skilorðsbundnum dómum en óskilorðsbundnum á börn hlýtur að vera það sem við leggjum áherslu á enda er það andi þeirra laga sem í gildi eru. Við vitum um mjög stóra hópa sem hafa beðið bæði eftir dómum og verið á frestun eða verið á skilorði á undanförnum árum þar sem eftirfylgnina eða skilyrðin sem á að fylgja á meðan á skilorði stendur vantar af hálfu fangelsisyfirvalda til að um virkt eftirlit sé að ræða.

Hvort sem um er að ræða skilorðsbundna dóma eða óskilorðsbundna þá á tíminn, sem refsingin stendur yfir, að vera notaður til betrunar og endurhæfingar. Virkt eftirlit á skilorðstíma ýtir frekar undir að ákveðin betrun og endurhæfing eigi sér stað. Vissulega er ábyrgð foreldra til staðar en það er oft og tíðum þannig, sérstaklega þegar um börn sem hafa verið í eiturlyfjaneyslu er að ræða, að mjög erfitt er að fá þau til samstarfs við foreldra, erfiðara en að fá þau til samstarfs við fangelsismálayfirvöld eða félagsmálayfirvöld. Þess vegna hljótum við að leggja áherslu á að farið sé í það að setja nýjar reglur hvað varðar skilorð og skilorðseftirlitið, beita því meira, með það að aðalmarkmiði að um betrun og félagslega endurhæfingu sé að ræða eins og getur um í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og barnasáttmálanum.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. dómsmrh. hefur sýnt það í svörum sínum að hún hefur áhuga á þessum málaflokkum og ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að fullyrða að það hafi ekki verið til staðar í mörg undanfarin ár að menn hafi hugsað um að það þurfi að beita sérstökum úrræðum hvað varðar unga afbrotamenn.