Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:32:00 (5656)

2000-03-22 15:32:00# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Íslandsflug hefur nú ákveðið að draga sig út úr samkeppni við Flugfélag Íslands í áætlunarflugi á innanlandsmarkaði eftir kostnaðarsama styrjöld frá því að sérleyfi í fluginu voru afnumin um mitt ár 1997. Í upphafi þessa mikla stríðs lækkuðu fargjöld um 40% en eru nú jafnhá og þau voru áður. Það sem hefur sennilega mestu valdið um að þessari samkeppni er lokið er að Flugfélagi Íslands leyfðist að lækka fargjöld sín um leið og þessi samkeppni hófst og elta þar með lág fargjöld Íslandsflugs. Til þess að samkeppni verði á markaðnum þarf annar aðilinn að hafa möguleika á að koma sér þar fyrir. Telur hæstv. samgrh. að Samkeppnisstofnun hefði átt að grípa inn í þessa atburðarás?

Núverandi fyrirkomulag sjúkraflugs á Íslandi hefur gengið sér til húðar. Þörf er á stórátaki til þess að bæta þennan nauðsynlega þátt flugþjónustunnar, tryggja að hann sé til staðar þegar á þarf að halda og tryggja íbúum landsins jafnrétti hvað varðar sjúkraflutninga. Traust og öflug sjúkraflutningaþjónusta er mikill stuðningur við heilbrigðisstarfsemi í dreifbýli en það er eins með sjúkraflugið og áætlunarflugið, þetta er allt í stórhættu og hætta á að flugrekstraraðilar dragi sig þar út úr. Þróunin í innanlands- og sjúkraflugi er ein sorgarsaga.

Herra forseti. Hér á Íslandi eru til dæmi um að samgöngur við einstök byggðarlög séu eru styrkt af ríkissjóði. Benda má á ferjusiglingar til nokkurra staða og einnig má benda á endurgreiðslu ríkissjóðs til sérleyfishafa vegna farþegaflutninga á landi, sem voru 54 millj. kr. á síðasta ári. Það eru því fordæmi fyrir því að styrkja samgöngur til ýmissa minni staða. Hvers vegna er það ekki hægt í fluginu einnig?

Á sama tíma og þetta gengur yfir okkur í flugsamgöngum á Íslandi er samgrn. með hugmyndir um að auka álögur á innanlandsflugið. Forsendur traustra byggða og þar með vaxtarsvæða eru öruggar samgöngur, öflug sveitarfélög og samstarf byggðarlaga um þjónustu og góð skilyrði til atvinnusóknar. Þannig er m.a. komist að orði í byggðaáætlun hæstv. ríkisstjórnar. Spyrja má: Er stefnan í flugmálum á Íslandi í takt við þessa áætlun? Ég segi hiklaust nei. Byggðaþróunaraðgerðir í nágrannalöndum okkar eru almennt umfangsmiklar og fjölbreyttar og beinast ýmist beint eða óbeint að sveitarstjórnum, einstaklingum eða fyrirtækjum. Þannig má segja að byggðastyrkir til að halda uppi og styrkja flug til minni staða á landsbyggðinni væru í samræmi við kerfi það sem vel er þekkt og mikið notað í þessum löndum. Hvers vegna skyldum við ekki geta tekið þetta upp einnig?

Herra forseti. Ég hef gert að umræðuefni nýjasta þáttinn í því sem ég tel enn eitt skrefið aftur á bak í byggðaþróun á Íslandi. Ég tel að við þurfum að beita frekari jöfnunaraðgerðum milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Einkunnarorðin okkar gætu samt sem áður verið samkeppni, samstarf og samstaða. Afskiptaleysisstefna núverandi ríkisstjórnar í byggðaþróunarmálum er stórhættuleg fyrir land og þjóð. Til þess að á Íslandi búi ein þjóð þarf að bæta samgöngur því að góðar og öruggar samgöngur eru skilvirkasta leiðin að því marki. Allir landsmenn eiga að hafa sömu möguleika án tillits til búsetu. Ef samgöngur eru í þokkalegu lagi og jafnræðisreglunnar gætt á öðrum sviðum gengi það eftir. Markmiðið með bættum samgöngum hlýtur að vera að samgöngur auki möguleika á atvinnurekstri og búsetu á viðkomandi svæði. Þróun í flugsamgöngum undanfarinna missira er stórt skref aftur á bak í þessum efnum.

Herra forseti. Að lokum langar mig að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. samgrh.:

1. Ætla ríkisstjórnin og hæstv. samgrh. að gera eitthvað í því ástandi sem skapast hefur upp á síðkastið í málefnum landsbyggðarinnar hvað varðar flugsamgöngur?

2. Hyggst ríkisstjórnin fara þá leið að styrkja flug til ýmissa staða á landsbyggðinni?

3. Kemur til álita hjá hæstv. samgrh. að á vegum ríkisstjórnarinnar verði allt sjúkraflug boðið út í einu lagi með flugi á landsbyggðina? Með slíku heildarútboði tel ég að hægt væri að fá hagstæð og góð tilboð frá nokkrum aðilum í flugrekstri og tryggja áfram samkeppni, áframhaldandi sjúkraflug og flugsamgöngur við landsbyggðina.