Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:44:07 (5659)

2000-03-22 15:44:07# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er verið að ræða mjög alvarlegt mál, ekki bara fyrir Siglufjörð og flugsamgöngur þangað heldur og alla aðra staði á landinu þar sem flugsamgöngur hafa lagst af. Það er að skapast mjög alvarlegt ástand í innanlandsfluginu, þ.e. að sú flugþjónusta sem byggðist upp víða um land hefur smám saman dregist saman. Bættar vegasamgöngur hafa á nokkrum stöðum haft áhrif á fyrri þörf fyrir reglulegt flug en það er ekki hægt að ganga svo langt að leggja alfarið niður flug til þeirra staða sem mikilvægir eru til að halda uppi byggð í landinu. Fólk verður einnig að hafa val og auk þess er ekki hægt að treysta á færð á vegum frá öllum stöðum, t.d. Siglufirði, yfir vetrartímann.

Íslandsflug kom á samkeppni í innanlandsfluginu og hafði veruleg áhrif til lækkunar fargjalda. Nú er Íslandsflug að leggja niður áætlunarflug á mörgum stöðum og gerir það með litlum fyrirvara vegna tapreksturs. Flug til Egilsstaða leggst af um næstu mánaðamót og um leið fellur niður staðbundið sjúkraflug frá Egilsstöðum sem Íslandsflug þjónaði.

Íslandsflug leitar nú til sveitarfélaganna og hins opinbera til að halda uppi áætlunarflugi þar sem fyrirtækið geti ekki haldið áfram í taprekstri. Fyrirsjáanlegt er að auk fækkunar í áætlunarleiðum munu fargjöld hækka á þeim flugleiðum sem eftir verða. Flugsamgöngur, þ.e. áætlunarflug, verða til framtíðar að vera til fleiri staða en fimm eða sex helstu flugvalla landsins. Þetta er enn einn hlekkurinn sem er að bresta í öryggismálum og landsbyggðarmálum almennt. Þetta er stórt og mikið byggðamál. Það er komið að því að hið opinbera, þ.e. ríkisstjórnin, taki ákvörðun um opinbera styrki til fleiri staða en gert er í dag.