Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:46:25 (5660)

2000-03-22 15:46:25# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Fyrir marga staði á landinu er reglulegt flug sannkölluð lífæð. Það er mikilvægur öryggisþáttur, bætir búsetuskilyrðin og getur verið það sem skiptir sköpum þegar menn velja sér framtíðarbúsetu eða taka slíka ákvörðun.

Á undanförnum árum hefur sú þróun orðið að flug hefur verið að dragast saman á ýmsum stöðum og hefur víða valdið miklum áhyggjum, einkum þar sem samgöngur eru erfiðar eða vegalengdir miklar. Nú síðast komu tíðindi frá Siglufirði. Eins og hér hefur komið fram er flugið einkar mikilvægt fyrir Siglufjörð yfir vetrartímann því að það rýfur þá miklu vetrareinangrun sem þar er og spurning hvort Siglufjörður á einhverja möguleika á flugi þar til jarðgöngin eru komin til Ólafsfjarðar.

En það kom líka á óvart, herra forseti, að ákveðið skyldi að hætta flugi til Húsavíkur fyrir skömmu og það veldur sannarlega miklum áhyggjum og þá ekki síður vegna sumarumferðar þar sem heimamenn hafa undanfarin ár verið að byggja upp einstaka ferðaþjónustu í kringum hvalaskoðun. Mörg þúsund manns og sífellt vaxandi fjöldi leggur leið sína til Húsavíkur með flugi eða gerði það. Það er því eðlilegt að heimamenn óttist að með því að flugið leggist af sé brugðið fæti fyrir frekari þróun á því sviði.

Herra forseti. Flugrekstrarhafar hljóta eins og aðrir að hafa séð að styrkir til sérleyfishafa á fólksflutningum í landi eru um 54 millj. í fjárlögum ársins. Ráðherra staðfesti með orðum sínum hér áðan þá staðhæfingu sem heyrist þessa dagana að flugfélögin munu ekki hafast að á næstunni því nú bíði þau eftir að ríkið bjóði fram styrki til flugs á ákveðnum flugleiðum, enda fordæmi fyrir slíku. Það virðist vera sá veruleiki sem blasir við í dag.