Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:50:55 (5662)

2000-03-22 15:50:55# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:50]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál sem hér um ræðir varðar þróun í samgöngumálum sem á sér nokkurn aðdraganda. Um árabil hefur þróunin verið þannig að áætlunarleiðum í lofti hefur fækkað og landsamgöngur tekið við. Flugsamgöngur hafa í auknum mæli verið bundnar við fáa flugvelli þar sem farþegar hafa safnast að frá tiltölulega stórum svæðum. Þessi hefur þróunin orðið fyrir austan. Þar eru nú aðeins í notkun þrír áætlunarflugvellir og þeim hefur fækkað um helming á einum áratug. Algengur aksturstími til flugvallar, t.d. á Egilsstöðum frá þéttbýlisstöðum á Austurlandi er um ein klukkustund.

Nú er þessari þróun enn haldið áfram og mér er kunnugt um og hefur komið fram í þessari umræðu að boðað hefur verið að flug verði lagt niður til Þórshafnar og Vopnafjarðar í vor frá Akureyri auk þeirra staða sem hafa verið nefndir í umræðunni. Aðstaða þessara þéttbýlisstaða, svo þau dæmi séu tekin, til að sækja til stærstu flugvallanna er vonlaus vegna fjarlægðar.

Eins og komið hefur fram hefur ríkisvaldið styrkt einstakar flugleiðir með fjárframlögum. Nauðsyn ber til að skoða nú þær aðstæður sem upp hafa komið og hvernig hægt er að tryggja samgöngur til þeirra staða með flugi sem eru algerlega háðir slíkum samgöngum. Um opinberan stuðning þarf að skapa viðmiðunarreglur og taka þá mið af þeim aðstæðum sem hafa skapast.

Við þau vandkvæði sem eru í samgöngumálum landsbyggðarinnar bætist að sérleyfishafar í fólksflutningum með áætlunarbílum eiga í miklum erfiðleikum. Skýrsla liggur nú fyrir í samgrn. um mál þeirra og nauðsyn ber til að ráðast í ráðstafanir til að tryggja þær samgöngur. Blönduð leið á opinberum stuðningi á skipulagsbreytingum er nauðsynleg í þeim efnum. Sjúkraflug er enn einn þáttur þessara mála en ástand þess er nátengt hnignun áætlunarflugsins. Það hefur skapast alvarlegt ástand á Austurlandi í þessum efnum. Ég nefni þetta hér þó að málið sé á forræði heilbrrn. en þar að auki eru nýjar leiðir í skoðun í þessum málum og nauðsynlegt er að komast að niðurstöðum um þær sem fyrst.