Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 16:03:36 (5668)

2000-03-22 16:03:36# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið. Það fer ekkert á milli mála að samgrh. hefur gott stuðningsmannalið í þinginu fyrir nauðsynlegum aðgerðum því að mér sýnist að flestir rói í sömu átt í þessu máli.

Það er spurt hvað ríkisstjórnin eða samgrh. ætli sér að gera. Við erum að skoða hvaða leiðir eru færar. Einnig er spurt um hvort ekki sé eðlilegt að teknir séu upp byggðastyrkir. Eins og kom fram í ræðu minni eru veittir byggðastyrkir þó að þeir séu ekki háir vegna flugsins og við höfum verið að fikra okkur inn á þessa leið sem hv. málshefjandi nefndi að væri notuð í Noregi, og reyndar fleiri, með því að bjóða út flugleiðirnar á jaðarbyggðirnar. Ég lýsti því jafnframt yfir í ræðu minni að ég tel að það beri að skoða hvort ekki eigi að bjóða út fleiri leiðir. Að þessu verður unnið og ég vona að hv. þm. styðji þær hugmyndir þegar þær koma fram.

Vegna umræðu um styrki, og ekki síst vegna þess sem hv. málshefjandi nefndi eitt ákveðið fyrirtæki, þá er það þannig að samkvæmt fjárlögum eru veittir styrkir til sérleyfishafa upp á 54 millj., þar af fær þetta umrædda fyrirtæki hlut vegna sérleyfis sem það rekur. Strætisvagnar á höfuðborgarsvæðinu fá 60 millj. Það er nauðsynlegt að því sé teflt fram í allri umræðunni um andstöðu við höfuðborgarsvæðið, en þetta eru styrkir til almenningssamgangna.

Ég vil að lokum, herra forseti, undirstrika að það er ekkert sem bendir til þess að flugfargjöld muni hækka sem betur fer. En rétt í lokin vil ég segja frá því að í samgrn. er í undirbúningi að halda ráðstefnu um almenningssamgöngur á Íslandi, bæði hvað varðar flug og aðrar áætlunarsamgöngur og ég vænti þess að hv. þm. taki þátt í þeirri umræðu sem þar fer vonandi fram þegar ráðstefnan verður haldin og verður undirbúningur að aðgerðum.