Frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 10:37:46 (5674)

2000-03-23 10:37:46# 125. lþ. 86.92 fundur 406#B frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[10:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur skýrt mál sitt og glögglega að vanda en svar hans vekur upp nýjar spurningar. Við höfum æ ofan í æ heyrt forsrh. og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar segja frá því í fréttum hvernig þeir ætli að liðka fyrir kjarasamningum með aðgerðum í skattamálum og á ýmsan hátt þannig að samningar náist. Þegar við hins vegar, herra forseti, hlustum á hæstv. fjmrh. vaknar spurningin um hvort komi á undan eggið eða hænan. Er það svo að ríkisstjórnin bíði og sjái hvað Flóabandalagið gerir í sínum málum og kippi frv. til baka ef einhverjir hnökrar verða? Væri kannski skynsamlegt ríkisstjórnin afgreiddi frv. sitt fyrst þannig að Flóabandalagið velktist ekkert í vafa um vilja ríkisstjórnarinnar og ætlun í tengslum við vinnumarkaðinn, skattamál og þau mál sem sett hafa verið á oddinn, ekki bara af Flóabandalaginu heldur fjölmörgum öðrum? Eða er það svo að ríkisstjórnin ætli að bregðast við samningum hverjum á fætur öðrum og koma kannski með ný og ný úrræði í skattamálum og öðru? Þetta eru þær spurningar sem vakna við svör hæstv. fjmrh., virðulegi forseti.