Frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 10:39:36 (5675)

2000-03-23 10:39:36# 125. lþ. 86.92 fundur 406#B frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[10:39]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar sem hér koma fram. Þær skýra vissulega málið vegna þess að við í efh.- og viðskn. vorum í mikilli óvissu að því er þetta mál varðar í gærkvöldi þegar það var rætt hverju sætti að málið er ekki á dagskrá. Þetta skýrir málið að verulegu leyti.

Það sem skiptir öllu máli í þessu er að ávinningurinn af frv., þ.e. að þetta komi fram í staðgreiðslunni og sé miðað við 1. apríl, skili sér til launafólks. Hæstv. ráðherra hefur skýrt frá að það muni gerast bæði fyrir þá sem fá fyrir fram greidd og eftir á greidd laun. Það er það sem skiptir öllu máli.

Hitt finnst mér nokkuð sérkennilegt að beðið skuli eftir niðurstöðu í atkvæðagreiðslu Flóabandalagsins. Mér fyndist að meiri manndómur hefði verið að því að lögfesta þetta alveg óháð þeirri atkvæðagreiðslu svo mjög sem skattleysismörkin hafa dregist aftur úr launaþróun á umliðnum árum. Ég vænti þess að við eigum eftir að sjá fleiri úrbætur sem tengjast þessum kjarasamningum, t.d. barnabæturnar en þær höfum við ekki séð enn þá. Vissulega mun ekki standa á okkur, fulltrúum Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn., að afgreiða þetta mál fljótt og vel þegar það kemur inn í nefndina.