Frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 10:43:05 (5677)

2000-03-23 10:43:05# 125. lþ. 86.92 fundur 406#B frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[10:43]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég var inntur eftir skýringum er varða eitt ákveðið þingmál. Þær skýringar hef ég veitt og ég heyri ekki betur en menn telji að þær séu fullnægjandi að því er varðar framgang og afgreiðslu málsins á hinu háa Alþingi.

Síðan eru að sjálfsögðu önnur atriði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars sl. Þau eru ekki til meðferðar í þingmálinu sem spurt var um. Ég get hins vegar sagt frá því að það er verið að vinna að útfærslu á barnabótaþætti þessarar yfirlýsingar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að sá þáttur komi til framkvæmda fyrr en á næsta ári þannig að í raun væri nægilegt að afgreiða slíkt mál á þinginu í haust. Við höfum til skoðunar hvort það náist að gera þær breytingar sem þar er um að ræða á vorþinginu en það mun koma í ljós.

Ég vil geta þess að ég hef tjáð formanni verkalýðsfélagsins Eflingar í Reykjavík um framkvæmd þess þingmáls sem hér er til umræðu. Hann var sá viðsemjandi sem við höfðum mest samband við í tengslum við þetta mál. Auðvitað liggur fyrir að það er samhengi á milli afgreiðslu málsins og atkvæðagreiðslnanna í Flóabandalaginu. Það hafa ekki komið athugasemdir við þessa málsmeðferð af hálfu þeirra aðila þannig að ég held að þetta mál sé í mjög eðlilegum farvegi.

Það var ágætt að fá tækifæri til að skýra málið. Ég þakka fyrir það tækifæri. Málið er svona vaxið og ef allt fer að óskum þá mun þetta koma til framkvæmda eins og að er stefnt frá 1. apríl þó að menn muni ekki njóta þess fyrr en 1. maí.