Álagning gjalda á vörur

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 10:45:21 (5678)

2000-03-23 10:45:21# 125. lþ. 86.1 fundur 500. mál: #A álagning gjalda á vörur# (breyting ýmissa gjalda) frv. 104/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[10:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 794 um breyting á lögum um álagningu gjalda á vörur sem fluttar eru hingað til lands eða framleiddar eru hér á landi. Nánar tiltekið er um að ræða breytingar á ákvæðum tollalaga, laga um vörugjald, gjald af áfengi, virðisaukaskatt og laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Hér er því um að ræða svokallaðan bandorm þar sem fleirum en einum lögum er breytt en þó samkynja atriðum í öllum lögunum.

Meginmarkmiðið með frv. er að tryggja að skýrt sé kveðið á um það í lögum í hvaða tilvikum þau gjöld sem lögð eru á vörur samkvæmt ákvæðum fyrrgreindra laga skuli felld niður eða lækkuð. Með því er tryggt að farið sé að þeim reglum sem fram koma í 77. gr. stjórnarskrárinnar þess efnis að ákvarðanavald um álagningu, breytingu eða niðurfellingu skatta verði ekki framselt til framkvæmdarvaldsins, en með breytingum á stjórnarskránni 1995 voru heimildir í þessum efnum þrengdar mjög verulega, eins og við mörg munum og þekkjum frá þeim tíma.

Í flestum tilvikum er ekki um efnislegar breytingar í frv. að ræða frá núverandi framkvæmd. Þó eru lagðar til í einstökum tilvikum nokkrar breytingar sem sérstök ástæða þótti til að nota tækifærið nú og breyta frá núverandi framkvæmd og mun ég rekja efni þeirra hér.

Auk breytinga á ákvæðum tollalaga og annarra laga er varða niðurfellingu gjalda er lögð til breyting á málskotsreglum í þeim tilvikum er ágreiningur rís um niðurfellingu tolla. Þannig er lagt til að úrskurður einstakra tollstjóra varðandi það hvort skilyrði séu fyrir hendi til lækkunar eða niðurfellingar gjalda verði að meginstefnu til kæranlegur til ríkistollstjóra í stað ríkistollanefndar áður.

Meginrökin fyrir þessari breytingu er að telja verður að möguleiki innflytjenda til að kæra synjun tollstjóra á niðurfellingu tolls og eftir atvikum annarra aðflutningsgjalda verði virkari og málsmeðferð einfaldari við að unnt verði að kæra synjunina til ríkistollstjóra í stað ríkistollanefndar. Hafa ber í huga að í flestum tilvikum eru fjárhæðir aðflutningsgjalda ekki háar. Öðrum úrskurðum tollstjóra en þeim er varða fyrrgreind niðurfellingarákvæði yrði eftir sem áður skotið til ríkistollanefndar.

Þar sem í frv. er einkum um að ræða formbreytingu á niðurfellingarákvæðum er ekki ástæða til að fara sérstaklega yfir efni einstakra greina og vísa ég í því sambandi til athugasemda með einstökum greinum frv. Ég vil þó nefna nokkur atriði.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á reglum um tollfrjálsan innflutning á hráefni til iðnaðarframleiðslu. Þannig er lagt til að í stað sérstakrar heimildar til ráðherra til niðurfellingar tolls verði lögbundin sú meginregla að tollur skuli falla niður af hráefni, efnivöru eða hlut í innlenda framleiðsluvöru, svo og af umbúðum fyrir slíka vöru. Hins vegar nái niðurfelling ekki til landbúnaðarvara sem framleiddar eru hér á landi og njóta tollverndar. Þetta er í samræmi við gildandi framkvæmd en lagt er til að skýrt verði kveðið á um þetta atriði í lögum.

Í frv. eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um gjald af áfengi, m.a. er lagt til að innflutningur og sala á áfengi til tollfrjálsra verslana og í tollfrjálsar forðageymslur verði jafnan undanþegin áfengisgjaldi. Samkvæmt gildandi lögum er fjmrh. heimilt að leggja gjald á áfengi sem flutt er inn eða selt til tollfrjálsra verslana og tollfrjálsra forðageymslna. Eðlilegt þykir að áfengi sem selt er til slíkra aðila verði jafnan undanþegið gjaldi.

Hér er rétt að hafa í huga að fram er komið frv. um breytt fyrirkomulag á rekstri fríhafnarverslana og þarf að skoða sérstaklega samhengið á milli þessara tveggja frv. í meðferð efh.- og viðskn.

Þá er lagt til að endurgreiða skuli áfengisgjald af áfengi sem gjald hefur verið reiknað eða greitt af en er síðar sent til útlanda í tollfrjálsa verslun, í tollvörugeymslu, í tollfrjálsa forðageymslu, eða á frísvæði eða er fargað undir eftirliti tollyfirvalda. Rétt þykir að heimila endurgreiðslu áfengisgjalds í þessum tilvikum. Um er að ræða fremur hátt gjald og fyrirkomulag á smásölu áfengis er þannig að hætt er við að í einstökum tilvikum sé meira magn pantað til smásölu en unnt reynist að selja. Geta birgjar þá neyðst til að taka aftur við óseldum birgðum.

Hvað varðar lög um vörugjald af ökutækjum er lögð til breyting á fyrirkomulagi við eftirgjöf gjalda af ökutækjum fyrir björgunarsveitir. Á undanförnum árum hefur sérstakur liður á fjárlögum verið ætlaður til endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum af ökutækjum og vélsleðum sem flutt eru inn vegna starfsemi björgunarsveita og hefur sérstakur liður í 7. gr. fjárlaga jafnframt heimilað slíka endurgreiðslu. Fjárhæð endurgreiddra gjalda hefur verið takmörkuð við þá fjárhæð sem ákveðin er í fjárlögum hvers árs. Nú er lagt til að þessu fyrirkomulagi verði breytt þannig að í stað endurgreiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt heimild í fjárlögum verði lögbundin niðurfelling á ökutækjum og vélsleðum sem flutt eru inn fyrir starfsemi björgunarsveitanna. Þessi breyting skapar aukið svigrúm til innflutnings og endurnýjunar í samræmi við þarfir björgunarsveitanna á hverjum tíma og er að mínum dómi eðlileg breyting í alla staði.

Í frv. er enn fremur lagt til, og það er frávik frá gildandi lagaheimildum, að tollgæslumönnum verði heimiluð notkun gasvopna og handjárna við störf sín. Þessi breyting þykir eðlileg með hliðsjón af því að tollgæslumenn þurfa í auknum mæli að hafa afskipti af aðilum sem stunda ólöglegan innflutning fíkniefna og svífast í sumum tilvikum einskis í starfsemi sinni. Löggæslumönnunum og tollgæslumönnunum er því nauðsyn að hafa heimild til að bera þennan búnað til að vera betur færir um að gæta öryggis síns og annarra.

Herra forseti. Ég hef í grófum dráttum gert grein fyrir helstu efnisþáttum frv. Það er von mín að verði frv. að lögum verði betur tryggt að þær reglur sem lúta að lækkun og niðurfellingu gjalda á vörur séu skýrar þannig að borgurunum og aðilum í atvinnurekstri megi vera vel ljós réttur sinn og skyldur í þessum efnum.

Samfara þeim formbreytingum sem hér eru lagðar til er eins og áður segir lögð til nokkur breyting á málsmeðferð með það að markmiði að auðvelda aðilum að fá lækkuð eða niðurfelld gjöld í þeim tilvikum sem slíkur réttur er fyrir hendi og fá skorið úr ágreiningsefnum sem upp kunna að koma með greiðum og skilvirkum hætti.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.