Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:04:29 (5680)

2000-03-23 11:04:29# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er mjög þýðingarmikið frv. sem hér er lagt fram til 1. umr. Ég vona að félmn. hafi tök á að vinna með þetta frv. þannig að möguleiki sé á að afgreiða það fyrir vorið. Það hefur verið ljóst árum saman að nokkrir hnökrar hafa verið í málefnum brunamála og sérstaklega í verkaskiptingu af ýmsu tagi sem þurft hefur að endurskipuleggja. Í fljótu bragði virðist mér að hér sé tekið á þeim málum. Það er auðvitað mjög mikilvægt að félmn. fari gaumgæfilega yfir þetta frv. ... (Gripið fram í: Umhverfisnefnd.) umhvn. Lái mér hver sem vill að mér verði fótaskortur á tungu. Þetta var verkefni félmn. um árabil. Ég geri mér auðvitað grein fyrir að málið fer til umhvn. Það er mikilvægt að gaumgæfilega verði farið yfir frv., sérstaklega hvað varðar verkaskiptinguna sem kveðið er á um í frv.

Það er veigamikið að farið sé yfir skyldur slökkviliða og skyldur sveitarfélaga og betur skilgreint en áður verkefni Brunamálastofnunar og ekki síst Brunamálaskólans. Það hefur oft verið þannig varðandi skólann, stöðu hans innan Brunamálastofnunar, að menn hefur greint dálítið á um ákvarðanatöku og verkaskiptingu þar. Þess vegna er mikilvægt að á þeim málum sé tekið í þessu frv. Við fyrstu yfirferð virðist mér að það sé nokkuð gott.

Það eru þó nokkrar spurningar sem mig langar að bera fram. Svo ég byrji á Brunamálaskólanum þá tek ég undir að það hafi verið mjög gott mál á sínum tíma að honum skyldi komið á laggirnar. Þá gilti um hann reglugerð sem ekki hafði skýra stoð í lögum, alla vega ekki hvað innri mál skólans varðaði. Hins vegar hefur verið ljóst í alllangan tíma að það er mjög mikilvægt að kveða á um skólann í lögum.

Hér er ákvæði um það í 9. gr. að skólinn verði sérstök deild innan Brunamálastofnunar sem hafi umsjón með menntun, fræðslu og þjálfun slökkviliðsmanna á vegum Brunamálastofnunar og verði sérstakt viðfangsefni í fjárlögum. Setja á á laggirnar sérstakt þriggja manna skólaráð til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Það á að vera til ráðgjafar um fag- og rekstrarmálefni skólans og ber ábyrgð gagnvart brunamálastjóra á framkvæmd og starfsemi Brunamálaskólans. Við ráðningu skólastjóra Brunamálaskólans skal brunamálastjóri jafnframt leita eftir tillögu skólaráðs.

Ég skil þessa grein, þ.e. 9. gr. og skýringar með henni þannig að skólaráð muni móta talsvert framtíð Brunamálaskólans. Ég les greinina þannig að skólaráðið verði líka mótandi um mannahald og ráðningamál, að ráðið og skólinn verði sjálfstæðari sem sérstök deild eins og málum er skipað hér en hingað til hefur verið. Ég spyr hæstv. umhvrh. hvort það sé ekki rétt skilið að fyrir utan að brunamálastjóri leiti eftir tillögum skólaráðs við ráðningu skólastjóra verði skólaráðið líka með mannahald og ráðningarmál hjá sér. Ég spyr um þetta.

Það eru ýmis nýmæli í þessu frv. fyrir utan betri verkaskiptingu. Í 14. gr. þar sem kveðið er á um samvinnu sveitarstjórna um brunamál er nýmæli sem varðar bráðabirgðaákvæði I, að Brunamálastofnun fái heimild til að veita í fimm ár tímabundinn fjárstuðning til sveitarfélags sem sameinast um starfsemi eldvarnaeftirlits og slökkviliðs. Ég mundi gjarnan vilja fá að heyra meira um þennan þátt. Er þarna kannski átt við stærri sveitarfélög sem eru þegar með slökkvilið og sameinast minni sveitarfélögum um þá starfsemi? Er í einhverjum tilfellum um það að ræða að sveitarfélög sem hafa ekki verið með slökkvilið sameinist og komi sér upp slökkviliði, þessi smærri? Hvað er það nákvæmlega sem menn eru þarna að sjá fyrir?

Það er kveðið á um að ákveðinn mismunur á álögðu brunavarnagjaldi og árlegum kostnaði við rekstur Brunamálastofnunar verði veitt til þessara styrkja. Árið 1999 nam þessi mismunur 14 millj. kr. Verður styrkur veittur til að kaupa tæki, slökkviliðsbifreiðar eða önnur tæki sem slökkvilið þarf að hafa? Verður styrknum veitt til reksturs? Það sér maður ekki á greininni eða útlistun á henni. Mér finnst mjög mikilvægt að sveitarfélög semji sín á milli um sameiginlegt eldvarnaeftirlit og slökkvilið. Ég er sannfærð um að ef skipa á þessum málum vel þá á að vera með fá en öflug slökkvilið, auðvitað þannig að þau nái til allra staða sem þeim er ætlað að þjóna. Þau yrðu fremur fá og öflug og mundu sameinast bæði um rekstur og tæki. Mér finnst þetta ákvæði mikilvægt en vil gjarnan heyra hver hugsunin er varðandi það sem ég hef nefnt.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frv. Það jafngildir þó ekki því að ég lýsi yfir fullum stuðningi við öll ákvæði þess. Ég legg mikla áherslu á að umhvn. skoði það vel. Þetta er talsverður lagabálkur um mál sem hafa verið erfið. Það hefur verið talsverður ágreiningur um verkaskiptingu og sjálfstæði þeirra stofnana sem tengjast brunavörnum og slökkviliðum, ekki síst Brunamálastofnunar og Brunamálaskólans. Þess vegna er afar brýnt að nú þegar þetta mál kemur til kasta löggjafafns þá förum við í það vandlega og gætum að því að málum verði skipað eins og best verður á kosið.

Þess vegna lýsi ég því yfir að ég mun hvetja til þess að Samfylkingin leggi sitt af mörkum til að skoða þessi mál mjög vel. Mér þykir gott að það skuli koma til umræðu áður en nefndavikan hefst þannig að mögulegt sé að afgreiða þetta mál fyrir vorið. Svo mikilvægt tel ég þetta mál vera.