Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:12:40 (5681)

2000-03-23 11:12:40# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Frv. til laga um brunavarnir sem við ræðum hér felur í sér nokkrar umbætur frá því sem verið hefur. Lengi vel var lenska hér á landi að hafa stjórnir yfir opinberar stofnanir og síðan forstjóra sem ekki heyrði undir stjórnina. Þannig var þetta iðulega og olli því að skipuritið var afskaplega óhreint. Það var ekki á hreinu hver réð og hver bar ábyrgð. Þetta hefur valdið miklum deilum milli stjórnar stofnana sem oft telur að hún eigi að stjórna og hins vegar forstjórans sem telur að hann hlýði eingöngu ráðherra.

Í 8. gr. þessa frv. er ráðin bót á þessu og lagt til að brunamálastjóri heyri beint undir ráðherra og það sé ekki stjórn yfir stofnuninni. Mér finnst það sé rétt. Annaðhvort höfum við stjórn sem ræður forstjóra og ber ábyrgð gagnvart ráðherra eða þá að forstjórinn heyri beint undir ráðherrann svo að skipuritið sé hreint. Þetta kemur í veg fyrir alls konar vandkvæði og deilur þannig að þetta er til mikilla bóta.

Við Íslendingar búum við að hér er frekar lítið um brunatjón. Þetta er eitthvað um 700 millj. kr. tjón að jafnaði á ári. Árlega farast um 1--2 í brunatjónum sem eru að sjálfsögðu einum til tveimur of mikið. Því er sjálfsagt að reyna að halda vel á brunavörnum almennt.

Hins vegar finnst mér, herra forseti, dálítið merkilegt sem kemur fram í umsögn fjmrn. sem segir að gjaldið hafi undanfarin ár gefið meiri tekjur en sem nemur rekstri Brunamálastofnunar. Það eru svona 13 millj. kr. á ári og það er eins og menn hafi sest niður og reynt að eyða þessu eins og mögulegt var í staðinn fyrir að huga að því að lækka skattinn á húseigendur.

Sama kemur í umsögn um 37. gr. Þar er þessi skattlagning ákvörðuð 0,045 prómill af vátryggingarfjárhæð. Þar kemur fram að það hafi verið afgangur af þessu gjaldi undanfarin ár og nú ætli menn fram til ársins 2005 að reyna að koma þeim afgangi í lóg.

[11:15]

Nú er þetta ekki stór gjaldaliður hjá húseigendum, 450 kr. af 10 millj. kr. íbúð. Margur mundi segja að munaði nú ekkert um það. En þeir eru svo margir, pinklarnir sem búið er að hengja á húseigendur. Þetta er einn molinn í viðbót og þyrfti að huga að því hvort hann megi lækka með betri rekstri og ódýrari á þessu sviði.

Gert er ráð fyrir að það eigi að styðja sveitarfélög til að sameinast um rekstur slökkviliða o.s.frv. og allt gott um það að segja. Vonandi lækkar það tíðni brunatjóna enn frekar. En ég vil geta þess að Brunabótafélag Íslands stendur í svipaðri starfsemi með sína miklu sjóði, sem sumir telja að það hafi ekki fengið löglega frá eigendum sínum. Þar er ákvæði um að sveitarfélögin erfi borgara sína sem sumir telja að sé ekki alveg í samræmi við stjórnarskrána. Hér á hinu háa Alþingi hefur verið flutt frv. um að leggja niður Brunabótafélag Íslands og greiða þær eigur sem þar eru inni til lögmætra eigenda. En það er annað mál. Þeir eru sem sagt líka að veita styrki til sveitarfélaga til þess að efla brunavarnir þannig að þetta skarast nú eitthvað.

En mér finnst, herra forseti, að þegar í ljós kemur að skattur til að standa undir ákveðnum verkefnum er of hár þá eigi menn ekki síður að huga að því að lækka skattinn fremur en endalaust að reyna að koma honum í lóg með því að fjölga verkefnum.