Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:29:55 (5685)

2000-03-23 11:29:55# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:29]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil nú fyrst af öllu fagna framlagningu þessa frv. til laga um brunavarnir. Hér eru á ferðinni býsna mikilvæg mál þó ekki séu þau daglega á dagskrá á hinu háa Alþingi eða í hinni almennu umræðu. Engu að síður eru hér miklir hagsmunir á ferð, öryggisþjónusta sem nauðsynlegt er að hafa í sem bestu lagi frá einum tíma til annars.

[11:30]

Herra forseti. Áður en ég vík tali að einstökum greinum frv. og innihaldi þess þá vil ég taka fram að held ég að við höfum gegnum árin búið býsna vel hvað þennan öryggisþátt varðar. Þó að stundum hafi staðið stormar um t.d. Brunamálastofnun ríkisins og hún verið í almennri umræðu, að minni hyggju, um aukaatriði, þá þekki ég það vel til innan búðar að þar hefur verið mikill metnaður ríkjandi og veruleg uppbygging á ferð. Ég nefni til sögunnar eitt atriði þar sem við stöndum miklum mun framar en flestar aðrar þjóðir og það er kortlagning bygginga, skoðun þeirra með eldvarnaeftirlit í huga og gagnabanka sem komið hefur verið upp í Brunamálastofnun og hjá einstökum slökkviliðum um til hvaða bragða ætti að grípa þegar og ef óhapp gerist. Ég held að ég geti fullyrt það, herra forseti, að við stöndum talsvert framar nágrannþjóðum okkar hvað þetta varðar og kannski njótum við fámennisins í því sambandi.

Í þessum efnum er auðvitað aldrei nóg að gert og fræðslustarfsemi og fyrirbyggjandi aðgerðir af þessum toga munu því miður aldrei koma í veg fyrir að óhapp verði.

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. og finnst sitt hvað horfa til betri vegar og fjölmargt þar skýrt. Það eru þó nokkur atriði sem ég staldra við og af því að í orðaskiptum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og hæstv. umhvrh. var staldrað við stjórnarfyrirkomulag þessarar stofnunar, þá dugir mér sú röksemd ekki að það passi betur í strúktúrinn, eins og hæstv. umhvrh. orðaði það, að breyta stjórn í ráð, breyta virkri stjórn sem skipuð er af hagsmunaaðilum, slökkviliðsmönnum og sjúkraflutningamönnum, fulltrúum ráðherra og tryggingafélaga í ráð, sjö manna ráð sem er því sem næst valdalaust og er í raun valdalaust ef við segjum það eins og það er, enda áttar maður sig á því þegar samsetning ráðsins er skoðuð að semjendur frv. hafa lent í vandræðum með að setja það saman. Það má til sanns vegar færa að Samtök atvinnulífsins eigi þarna fulltrúa vegna þess að stóru byggingarnar eru yfirleitt í eigu fyrirtækja, en hvar eru þá fulltrúar almennra húseigenda? Menn hafa auðvitað lent í tómum vandræðum með að fylla þarna töluna sjö með vitrænum hætti.

Ég tel að miklu meiri metnaður verði innan búðar hjá stjórn þessarar stofnunar ef hún hefur þar völd. Það er mín reynsla, þvert á það sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan, og menn skulu ekki flýja þau vandamál sem geta komið upp, að stjórnir verði ekki endilega ráðherra þóknanlegar, verði ekki endilega þóknanlegar brunamálastjóra eða forstjóra stofnunar. Þær eiga ekki að vera það. Þær eiga að stjórna samkvæmt faglegum metnaði og samkvæmt þeim fjárhagslega ramma sem þessum stjórnum eru skapaðar. Þess vegna gef ég ákaflega lítið fyrir það að væntanlegur brunamálastjóri, samkvæmt þessari nýskipan mála, þurfi á einhverju beinlínusambandi við ráðherra að halda. Þessi stofnun er ekki það stór í mannahaldi og peningum að það kalli á einhverja beina stýringu hæstv. ráðherra í þeim efnum. Ég vil segja, svo að það sé hér fyrirliggjandi, að yfirleitt hafa bein afskipti ráðherra af undirstofnunum eins og Brunamálastofnun er ekki haft í för með sér farsæld og hamingju, þvert á móti. Yfirleitt hefur það verið best að ráðherrar skipti sér sem minnst af slíkum stofnunum ef nokkur kostur er og að stjórn þeirra hafi með höndum reksturinn, mannahaldið og hina faglegu uppbyggingu. Ég segi því, herra forseti, að ég er ekki sammála þessari nálgun mála. Mér finnst hún satt að segja dálítill flótti frá veruleikanum og jafnvel flótti frá viðfangsefnum skulum við segja.

Hæstv. ráðherra hefur væntanlega tök á því að rökstyðja eilítið betur en hún gerði áðan hvers vegna þessi breyting er gerð. Það dugir heldur ekki að vísa til annarra hliðstæðra stofnana og segja að þetta sé þróun mála og passi betur við hinn eðlilega strúktúr. Það dugir engan veginn. Við verðum að horfa á málið eins og það er og það er einfaldlega þannig að stjórn Brunamálastofnunar ríkisins hefur verið virk og hefur skipt máli. Á hana hefur verið hlustað inn á við og út á við, en eftir þetta verður það ekki gert.

Ég vil enn fremur undirstrika að stjórn þessarar stofnunar hefur virkað þyngra í hinni almennu umræðu einmitt sem þrýstiaðili gagnvart ráðuneyti um tiltekna hluti af þessum sökum jafnvel þótt einn af þremur hafi verið skipaður af ráðherra sjálfum.

Ég vil einnig, eins og aðrir hafa gert, staldra örlítið við Brunamálaskólann sem ég tek undir að mikilvægt er að festa í lög og reyna að skilgreina betur en gert hefur verið. Hins vegar hefur Brunamálaskólinn þrátt fyrir þessa óljósu ytri umgjörð og vöntun á lagagrundvelli verið að vinna þrekvirki og þar hafa mál gengið mjög vel fram í alla staði þrátt fyrir óljósan lagaramma. Það er því fagnaðarefni út af fyrir sig að skapa honum þann sess sem honum ber.

Í markmiðssetningu í 9. gr. og síðan aftur í 17. gr. er varðar hæfi og löggildingu slökkviliðsmanna sem hangir hvað með öðru, þá sakna ég þess örlítið að hengja það ekki á Brunamálaskólann í lagatexta að honum beri líka að vera lykilatriði hvað varðar endurmenntun og símenntun slökkviliðsmanna. Í lagatextanum er eingöngu kveðið á um mikilvægi þess að forsenda þess að menn fái löggildingu sem slökkviliðsmenn sé sú að þeir hafi farið í gegnum skólann en ég vil einnig sjá það sem hlutverk skólans í lagatexta að símenntun og endurmenntun sé þar mikilvægur þáttur.

Einnig og ekki síður þurfum við að velta örlítið vöngum yfir því hvert hlutverk Brunamálaskólans í þessu samhengi andspænis eðlilegri starfsemi Brunamálastofnunar er varðandi námskeiðahald hjá slökkviliðum. Ég nefndi áðan að Brunamálastofnun hefði verið virk í ýmsu og m.a. í námskeiðahaldi hringinn í kringum landið. Ekki síst hefur það skipt miklu hjá hinum litlu slökkviliðum sem eru mörg hver fámenn, sum jafnvel ekki með fasta starfsmenn, jafnvel ekki hálft stöðugildi, heldur byggja á áhugamannaliðum sem kölluð eru til ef óhöpp verða. Ég hefði viljað sjá eilítið betur neglt niður í lagatexta hvernig Brunamálaskólinn og eftir efnum og ástæðum stofnunin sjálf ætlar að koma að þeim atriðum, fræðslu og kennslu, sem eru svo snar þáttur í núverandi starfsemi stofnunarinnar.

Í 16. gr. eru fræðslu- og þjálfunaratriði í brunavörnum sett á herðar slökkviliðsstjóra fyrst og síðast og það er út af fyrir sig alveg rétt að þetta frumkvæði verður að koma að heiman hjá slökkviliðsstjórunum sjálfum, hjá liðunum sjálfum en engu að síður sýnir reynslan, sérstaklega á minni stöðum, að það er ákaflega gott og nauðsynlegt að hvatinn komi frá Brunamálastofnun og eftir efnum og ástæðum Brunamálaskólanum.

Hér hafa menn rætt sameiningu slökkviliða og sameining virðist vera lykilorð í einu og öllu sem menn koma nærri. Hún á við í fjölmörgum tilfellum og er af hinu góða, sérstaklega hvað varðar samnýtingu tækjabúnaðar þegar það á við og því er unnt við að koma varðandi þjálfun, skoðanaskipti o.s.frv. En ég vara við því og vek á því athygli að hér erum við að tala um ákaflega sérhæfða þjónustu, öryggisþjónustu, og falsöryggi í þeim efnum er verra en allt annað. Menn vinna ekki sigur á örygginu í þessum efnum með sameiningu einni saman. Í því sambandi get ég ekki látið hjá líða, herra forseti, að víkja talinu að sameiningu sem hefur verið mjög í umræðu á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. sameiningu slökkviliða Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Reykjavíkurliðið. Mér finnst ekki einsýnt að sú sameining gangi fram. Það eru auðvitað sveitarstjórnarmennirnir sem ráða því en ég hef gjarnan sagt sem svo að eðli máls samkvæmt verður það þannig á þessum vettvangi eins og öðrum að jaðarbyggðir munu mæta afgangi í þeim efnum. Í þessu samhengi vil ég segja að ég tel algert grundvallaratriði að gengið sé frá því til langframa að jaðarbyggðir sem í þessu tilfelli við sameiningu slökkviliða Hafnarfjarðar og Reykjavíkur yrðu náttúrlega suðurhluti svæðisins og síðan eins og verið hefur ofanbyggðir Reykjavíkur, Kjalarnes o.s.frv. haldi óbreyttri þjónustu. Þetta er því ekki alveg jafnborðleggjandi og menn gætu haldið fyrir fram.

Einnig verða menn að átta sig á því úti á landi á hinum smærri stöðum að sameining slökkviliða yfir fleiri tuga eða hundruð kílómetra svæði er í raun engin sameining. Heimamenn í viðkomandi þéttbýli á hverjum stað munu bera hitann og þungann af því ef eitthvað kemur upp á. Menn verða því að tala um sameiningu í ljósi veruleikans og hann er sá sem ég lýsti hér áðan. Ef menn tala hins vegar um dreifbýlið verður að játa að það er bara allt annað að tala um brunavarnir og öryggismál í þeim efnum í þéttbýlinu á suðvesturhorninu annars vegar og í hinum litlu byggðum úti á landi hins vegar. Þar eru þessi mál allt öðruvísi og hafa gengið fram með ég vil segja ótrúlega góðu móti vegna þess að þar hafa einstaklingar búið sem hafa lagt sig fram til að tryggja þá þjónustu á viðkomandi stöðum án þess að fá mikið endurgjald fyrir nema klapp á bakið og traust og trúnað samborgara sinna og ástæða er til að halda því til haga því þessir hlutir gerast auðvitað ekki sjálfkrafa. Þess vegna er mikilvægt að Brunamálastofnun viðhaldi og haldi áfram því mikilvæga viðhalds- og uppbyggingarstarfi sem hún hefur sýnt og lagt af mörkum varðandi hinar dreifðu byggðir.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég vildi bara með þessu stutta innleggi mínu undirstrika að hér er á ferðinni mjög mikilvægur málaflokkur sem lýtur að varðveislu efnislegra verðmæta og ekki síður öryggi gagnvart lífi og limum fólks og í þeim efnum má ekkert til spara.