Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:18:36 (5695)

2000-03-23 12:18:36# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. utanrrh. ætli að hafa gott samstarf um þessi mál við starfsfólk í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og legg áherslu á að hann fylgi því eftir. Ég vil aðeins taka fram um það sem hann sagði annað að mér finnst að sjálfsögðu að gæta verði rekstrarhagsmuna Fríhafnarinnar ekkert síður en annarra í þessu húsi. Það er ekkert sjálfgefið þó einhver einkaaðili gefi sig fram og hafi hug á því að versla með einhverja tiltekna vöru, að þar með eigi Fríhöfnin að afsala sér verslun með hana bara á þeim forsendum að hún sé ríkisfyrirtæki. Það verður að gæta hagsmuna beggja aðila, ekkert síður þeirrar verslunar sem ríkið telst eiga en hinna.

Í öðru lagi vil ég taka það fram að ég lagði það ekki til að rekstur Fríhafnarinnar yrði einkavæddur þó ég tæki fram að ég teldi eðlilegt að menn skoðuðu hvort sama hlutafélag í ríkiseigu væri annars vegar með rekstur hússins og hins vegar með rekstur fríhafnarverslunarinnar. Ég gerði það eingöngu til að benda á að það gæti verið æskilegt að annar aðili en sá sem rekur fasteignina sjálfa gæti hagsmuna Fríhafnarinnar sem verslunar og starfsmanna hennar. Þannig væri ekki hægt að ásaka stjórn fyrirtækisins fyrir að misbeita valdi sínu í því skyni að vera jafnframt rekstraraðili hússins. Það var einfaldlega þetta sem ég benti á en ég var ekki að gera það að tillögu minni að Fríhöfnin yrði seld einkaaðila í hendur.