Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:23:04 (5698)

2000-03-23 12:23:04# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:23]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst sannast sagna ekki undarlegt að hæstv. utanrrh. þætti ræða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar bæði góð og málefnaleg. Ræða hans var að sönnu málefnaleg en góð fannst mér hún ekki. Málefnin sem hann talaði fyrir eru ekki á þann veg að ég geti stutt þau. Það sem mig langar hins vegar til að spyrja hv. þm. Sighvat Björgvinsson nánar um er sú yfirlýsing hans að opinberir aðilar eigi ekki að koma nálægt rekstri, verslunar- eða atvinnurekstri. Honum finnist það heyra til liðinni tíð. Er þetta algilt sjónarmið eða ber að skoða eðli máls hverju sinni? Hér erum við að fjalla um gullgerðarvél fyrir íslenska ríkið sem færir ríkissjóði mikla fjármuni. Þeir eru taldir í hundruðum millj. kr. á hverju ári. Þarf ekki að skoða eðli máls hverju sinni í stað þess að taka kaldhamraða pólitíska hægri sinnaða afstöðu eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði í máli sínu hér áðan?