Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:24:29 (5699)

2000-03-23 12:24:29# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:24]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Afstaða mín var ekkert kaldhamraðri en svo að ég sagði sjálfsagt að skoða það og taka til umhugsunar hvort íslenska ríkið ætti að standa í rekstri eins og þeim að reka flugstöð. Það er undantekning að ríki geri slíkt. Ég tók ekki afstöðu í því hvort það ætti að gera eða ekki en það væri umhugsunarvert, þetta þyrftu menn að skoða og ég veit að hv. þm. eru ekkert á móti því. Ég ítreka að þetta er skoðun okkar beggja sem erum fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn. Í því sambandi vísa ég bara hv. þm. á viðtal sem tekið er við Margréti Frímannsdóttur í Degi í dag. Þar segir hún nákvæmlega það sama þannig að þar er ekki um að ræða neinn meiningarmun á milli okkar. Mér heyrðist ekki heldur neinn meiningarmunur á milli okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Ég skildi hann svo í lok ræðu hans að hann teldi sjálfsagt að skoða málið og athuga það. Þannig væri ekki sjálfgefið hvorki að ríkið ætti að halda þessum rekstri áfram, hvað þá að auka við hann, né að aðrir ættu að taka við honum. En við erum sammála um að þetta er nokkuð sem þarf að skoða betur og það er meginatriði málsins.