Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:26:12 (5700)

2000-03-23 12:26:12# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:26]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að þetta mál hefur verið til skoðunar bæði hér á Alþingi og í samfélaginu í langan tíma. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fram kemur sú tillaga eða hún viðruð, að einkavæða beri Flughöfnina í Keflavík, Leifsstöð. Þannig að þetta er ekki nýtt af nálinni og þetta hefur verið til skoðunar. Ég skildi hv. þm., Sighvat Björgvinsson, þannig að hann væri að lýsa stuðningi við áform ríkisstjórnarinnar um að einkavæða Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég gat ekki skilið tölu hans hér á annan veg. Í því sambandi og í framhaldi af því spurði ég hann hvort þetta væri pólitísk afstaða jafnaðarmanna. Öðruvísi mér áður brá, að mönnum þætti óeðlilegt að ríki eða sveitarfélög fyrir hönd almennings í landinu kæmu nálægt atvinnulífinu. Ég gat ekki skilið ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar öðruvísi en að hann væri farinn að hamra nýja línu í ætt við nýja stefnu sem reyndar hefur verið boðuð af hálfu svokallaðra jafnaðarmannaflokka í Evrópu. Hún er meira í ætt við frjálshyggju en vinstri stefnu og sjónarmið jafnaðarmennskunnar.