Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:30:10 (5702)

2000-03-23 12:30:10# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla nú að nýta mér það að ég kem hér beint á eftir hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og benda honum á að hagnaður af Fríhöfninni hefur farið stigvaxandi síðustu ár, ekki vegna þess að þar hafa komið til einkareknar verslanir heldur vegna þess að fólk hefur verslað þar, í þessari einu og stóru millilandaflughöfn sem Íslendingar eiga og ætla núna að afhenda einkaaðilum. Hér á borðum okkar erum við með frv. um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson var það heiðarlegur að segja, þegar málið var kynnt þjóðinni fyrir fáeinum dögum, að hann útilokaði ekki --- þannig held ég að hann hafi komist að orði --- að hlutafé í hlutafélaginu yrði selt. Þetta er mikið framfaraskref, að viðurkenna þetta á þessu stigi. Yfirleitt þegar ráðist hefur verið í breytingu á rekstrarformi opinberra stofnana sem menn hafa ætlað að selja síðar hefur verið sagt á þessu stigi máls að ekkert slíkt vaki fyrir mönnum, einvörðungu sé um það að ræða að breyta rekstrarformi. Þetta var sagt þegar Landssíminn var gerður að hlutafélagi. Síðan liðu nokkrir mánuðir og þá var að sjálfsögðu farið að tala um sölu á stofnuninni. Þannig mætti nefna fjölmörg dæmi um óheiðarlegan málflutning. Það á hins vegar ekki við í þessu tilviki.

Við erum ekki bara að fjalla um einkavæðingu á hluta stofnunar heldur einkavæðingu á flugstöðinni með manni og mús. Hér segir í 1. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er nefnist Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt að leggja Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þ.e. flugstöðina sjálfa ásamt öllu því sem henni fylgir, eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum, til hins nýja félags.``

Í 7. gr. segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Tilgangur félagsins er að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra starfsemi sem þessu tengist.``

Síðan kemur landvinningagreinin fyrir einkavæðinguna, nr. 8, með leyfi forseta:

,,Heimili og varnarþing félagsins skulu vera á Keflavíkurflugvelli, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum.``

Þarna er landvinningagreinin fyrir frekari áform um einkavæðingu tengdum flugrekstri vætanlega. Hér erum við í fyrsta lagi að fjalla um einkavæðingu á flugstöðinni með manni og mús.

Annað atriði sem ég vildi víkja að í 1. umr. um málið er hvernig þetta ber að. Óhætt er að segja að þetta mál beri mjög brátt að. Í byrjun þessarar viku var tilkynnt í einni þingnefnd þingsins, í trúnaði, að til stæði að leggja fyrir þingið frv. um rekstrarbreytingu flugstöðvarinnar, um hlutafélagavæðingu eða einkavæðingu flugstöðvarinnar. Að kvöldi sama dags birtist hæstv. utanrrh. í fjölmiðlum og tilkynnti þjóðinni hvað stæði fyrir dyrum. Þetta er á mánudegi. Á miðvikudegi liggur fullbúið frv. á borðum þm. og í dag, á fimmtudegi, hefst umræða um málið.

Nú er það svo að þetta mál hefur lengi verið til umræðu í þjóðfélaginu. Það hefur oft komið upp í umræðum á Alþingi eins og ég nefndi áðan. Hins vegar kom þetta mál flestum mjög í opna skjöldu núna. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé: Hvers vegna þessi vinnubrögð? Hvers vegna hafa menn verið að pukrast með þetta mál? Hvernig stendur á því? Skyldi það vera að ríkisstjórnin og þá ekki síst Framsóknarflokkurinn sé feiminn við málið? Ef Framsóknarflokkurinn er feiminn við þetta mál hvernig skyldi standa á því? Hvernig skyldi standa á því að hann sé feiminn við þetta mál? Jú, að hluta til af pólitískum klókindum. Flokkurinn gerir sér grein fyrir því að þetta er óvinsælt og mætir andstöðu í þjóðfélaginu. Í öðru lagi, sem tengist að sjálfsögðu andstöðu fólks við frv., er það peningahlið málsins. Fríhöfnin í Keflavík og Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið sannkölluð gullgerðarvél fyrir íslenska ríkið. Gullgerðarvél fyrir íslenska ríkið. Þetta hefur oft verið rætt hér á Alþingi en þess má geta þess að hagnaður fríhafnar og flugstöðvarinnar árið 1997 var samtals 408 millj. kr. Á árinu 1998 var samanlagður hagnaður flugstöðvar og fríhafnar 620 millj. kr. og hafði þá aukist um 212 millj. kr. á milli ára. Þetta er þróunin sem við höfum séð síðustu árin. Samfara auknum umsvifum og aukinni verslun höfum við hagnast sem þessu nemur.

Hér er á ferðinni sannkallaður gullmoli í eigu íslensku þjóðarinnar. Þennan gullmola, þessa gullgerðarvél ætlar ríkisstjórnin að gefa frá okkur, í áföngum að sönnu, eins og gert er með Landssímann og önnur fyrirtæki sem hafa verið einkavædd. Að sjálfsögðu vakir fyrir mönnum að selja þetta fyrirtæki og koma því í einkahendur. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því og við gerum það öll. Það er mikill þrýstingur frá fjármálaaðilum í samfélaginu að koma höndum yfir þennan gullmola. Það segir sig sjálft. Það er mikill þrýstingur frá aðilum sem hafa peninga á hendi á að komast yfir þessa gullgerðarvél. Að sjálfsögðu er Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin feimin við þetta, að ætla að afhenda einkaaðilum þessa gullgerðarvél Íslendinga.

Í annan stað er það staðreynd sem hefur komið upp á Alþingi oftar en einu sinni að menn hafa ekki verið fyllilega sáttir við mannaráðningar í flugstöðinni. Þær hafa í sumum tilvikum verið umdeildar og stundum komið inn á borð Alþingis. Ég ætla ekki að víkja að persónulegum málum einstaklinga hér en vek athygli á því að þessi umræða hefur farið fram. Það er ágætt. Þegar flugstöðin hefur verið gerð að hlutafélagi þá er hæstv. utanrrh., sem ber ábyrgð á þessum málum, laus við allar áhyggjur. Hann væri laus við að þurfa að taka málin upp hér á þingi. Hann þarf ekki lengur að svara fyrir stofnunina sem opinbera stofnun. Um hana gilda önnur lög varðandi stjórnsýslu og upplýsingar, nú eru það hlutafélagalög. Hlutabréfið verður í þessu tilviki væntanlega eitt, á hendi hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar. Völdin og ráðin yfir þessari stofnun verða komin til hans.

Hér er því um að ræða takmörkun á lýðræðinu. Það er verið að takmarka lýðræðið og færa vald frá Alþingi, frá fulltrúum almennings sem hér eru, undir einn mann. Hann situr hér og er titlaður hæstv. utanrrh., hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson. Hann er laus við allar áhyggjur um að þurfa að fara með umræðu um þessi mál út á lýðræðislegan vettvang. Þá er ég fyrst og fremst að skírskota til Alþingis Íslendinga. Þannig verður öllum þessum málum komið á bak við tjöldin. Ég velti því fyrir mér, í ljósi þess hve brátt þetta ber að og hve feimin ríkisstjórnin greinilega er við málið, hvort hér sé komin ein ástæðan fyrir því að menn vilji hraða þessu máli.

Hitt þekkjum við mætavel, sönginn um nýju tímana. Hann var kyrjaður líka þegar ráðist var í að gera ríkisbankana að hlutafélögum. Nýi tíminn, söngurinn um hann var kyrjaður þegar byrjað var að selja hlut í ríkisbönkunum. Það var kyrjaður margradda kórsöngur um ágæti þess að steypa sjóðum í eigu almennings í FBA, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Söngurinn var enn kyrjaður þegar hann var seldur. Þjóðin horfði agndofa á hina ungu menn byrja að braska með milljarða. Í fyrstu héldu menn að verið væri að ráðast í breytingar og fjárfestingar sem kæmu atvinnulífi og þjóðlífi öllu að gagni en svo rann það upp fyrir mönnum að fyrstu skrefin sem þar voru stigin, fjárfestingar stórfelldar á sviði matvöruverslunar og dreifingar, hafa leitt til einokunar á því sviði og ekki orðið þjóðinni til hagsbóta eins og í veðri var látið vaka í upphafi.

Að lokum vil ég mótmæla þeirri almennu pólitísku staðhæfingu sem við höfum heyrt frá hæstv. utanrrh. og var ítrekuð af hálfu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um að það gangi ekki að hið opinbera annist eða komi nálægt atvinnu- og verslunarrekstri. Ég mótmæli þessu. Ég leyfi mér að halda því fram að mönnum beri að skoða málavöxtu hverju sinni. Hér erum við að tala um stærstu flugstöð Íslendinga. Þetta er einokunarfyrirtæki. Þarna er einokun. Við göngum þarna öll í gegn, við gerum það. Ég leyfi mér að efast um að þeirri samkeppni sem menn tala stundum fyrir á hátíðisdögum verði komið við þarna, nema þá innan flugstöðvarinnar eins og menn gera reyndar nú í einhverjum mæli. Menn fara ekki að velja á milli flugstöðva sem menn koma til. Þannig verður það væntanlega ekki.

Þegar hæstv. utanrrh. sagði í fjölmiðlum hér um daginn að það gengi ekki að reka atvinnufyrirtæki og verslun sem deild í utanrrn. þá spurði ég sjálfan mig: Kemur þetta frá formanni Framsóknarflokksins sem einu sinni taldi sig vera á miðjunni og jafnvel standa til vinstri? Líður formanni slíks flokks ekki svolítið undarlega að vera kominn ofan í skúffu hjá Sjálfstæðisflokknum? Finnst mönnum það ekki dálítið skrýtið þar á bæ? Einhvern tímann var Framsóknarflokkurinn ekkert feiminn við að viðurkenna og berjast fyrir því að ef það gagnaðist borgurum landsins þá væri rekstur fyrirtækja félagslegur, bara út frá eðli máls hverju sinni. Nú er farið að tala í anda kaldhamraðrar peninga- og frjálshyggju. Hann segir að verslun og atvinnurekstur eigi ekki að vera deild í utanrrn. En hvernig líður hæstv. formanni Framsóknarflokksins sem deild í Sjálfstæðisflokknum?