Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:46:38 (5704)

2000-03-23 12:46:38# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar skúffurnar og deildirnar var ég einfaldlega að leggja út af orðalagi hæstv. utanrrh. sjálfs. Nú segir hæstv. utanrrh. að ekki standi til að selja flugstöðina, hlutabréfin. Hann útilokar ekki að svo kunni að verða gert. Ég spyr þá: Hvers vegna í ósköpunum er verið að gera þetta þegar sýnt er og kemur fram í gögnum með frv. að ríkissjóður verður fyrir tilfinnanlegu tapi, 200 millj. á fyrsta ári, og það er sannanlegt að ríkissjóður, skattborgarinn, verður fyrir tapi af þessu? Það er sannanlegt og kemur fram í þeim gögnum sem hér fylgja með. Hitt skil ég varðandi lýðræðið og ég vildi gjarnan fá nánari upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra. Ég skil að hæstv. ráðherra vilji komast hjá því að svara fyrir þessa stofnun og gerðir sínar hér á Alþingi. Með þessari breytingu kemst hann hjá því. Það er það sem gerist. Hann er að takmarka lýðræðið og færa vald yfir þessari stofnun undir einn mann, sig sjálfan. Mér finnst þetta ósæmilegt. Ég skil þá, þótt ég sé ósammála þeim, sem vilja stofna hlutafélög um opinberan rekstur til þess að selja þau, ég skil það. Það eru frjálshyggjumennirnir sem vilja koma öllu lifandi og dauðu á markað, ég skil þá mjög vel. Hina skil ég ekki sem vilja gera þessar stofnanir að hlutafélögum án þess að selja, nema ef vera skyldi að þeir vilji styrkja sín eigin völd. Og það er þetta sem er að gerast með því frv. sem hér til umfjöllunar.