Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:48:45 (5705)

2000-03-23 12:48:45# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ ekki séð hvernig í ósköpunum hægt er að koma í veg fyrir það þó að þetta frv. verði samþykkt að hv. þm. Ögmundur Jónasson kveðji sér hljóðs hér á Alþingi og ræði þetta mál. Mér hefur fundist í gegnum tíðina að hv. þm. væru tilbúnir að ræða öll mál sem uppi væru í þjóðfélaginu og engar takmarkanir væru þar á. Það er verið að tala um að stofna hlutafélag í eigu ríkisins. Ef hv. þm. vill ræða málefni þess hlutafélags í eigu ríkisins getur hann að sjálfsögðu gert það hér á Alþingi. Og að verið sé að takmarka lýðræðið með því að stofna eitt hlutafélag, ég hef bara aldrei heyrt annað eins. Hv. þm. segir að ríkissjóður sé að tapa heilum 200 millj. fyrsta árið, 140 millj. að meðaltali. Gefur hv. þm. sér þær forsendur að það eigi aldrei að borga þær skuldir sem búnar eru að vera að safnast upp í gegnum tíðina? Eða eru það þær forsendur sem hv. þm. gefur sér almennt að því er varðar fjármál ríkisins að allt í lagi sé að safna þar upp alls konar óreiðuskuldum? Heldur hv. þm. að það séu hagsmunir starfsfólksins og skattborgaranna? Ég fer að halda samkvæmt þessum málflutningi að skuldirnar komi honum ekkert við.