Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:57:06 (5710)

2000-03-23 12:57:06# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Ég tek nú, herra forseti, undir með breska stjórnmálamanninum MacMillan sem einhverju sinni sat á forsætisráðherrastóli í Bretlandi og til umræðu voru einkavæðingar\-áform Thatcher-stjórnarinnar, að sér fyndist ekki hyggilegt að selja fjölskyldusilfrið. Og í þessu tilviki erum við núna að selja gullgerðarvél sem mun um ókominn tíma skila íslensku þjóðinni hagnaði. Þetta er einokunarfyrirtæki að auki þar sem markaðslögmálum verður komið við að mjög takmörkuðu leyti, nema innan stofnunarinnar og það er þegar farið að nýta þau á þeim vettvangi. Ég skil því ekki markaðshyggjumenn og frjálshyggjumenn eins og Pétur H. Blöndal að leggjast á sveif með einokunarsinnum að þessu leyti.

Innan lífeyrissjóðakerfisins og í umræðu um lífeyrissjóði og fjárfestingar lífeyrissjóða, þá hef ég aldrei verið talsmaður brasks og greiddi atkvæði gegn þeirri lagaklásúlu í lögum um lífeyrissjóði á sínum tíma sem kvað á um að lífeyrissjóðir skyldu jafnan leita hæstu ávöxtunar. (Gripið fram í: Fyrir sjóðfélagana.) Fyrir sjóðfélaga sína hverju sinni. Mér fannst þetta vera til óþurftar og mér finnst við vera komin of langt út á braut gróðahyggjunnar, þar sem hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. skírskotar til sem hinna nýju tíma, hinna nýju sjónarmiða. Mér finnst þetta afturhald og mér finnst þau skref sem hér er verið að boða til fortíðar en ekki inn í þá framtíð sem ég a.m.k. vil sjá.