Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 13:50:44 (5712)

2000-03-23 13:50:44# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að upplýsa um fjárhagslega stöðu flugstöðvarinnar. Ég tel langheppilegast að gera það þegar málið kemur til umfjöllunar í nefnd. Það eru að sjálfsögðu til reikningar flugstöðvarinnar fyrir sl. ár og ekkert á móti því að þeir reikningar séu sýndir í meðferð málsins þannig að hv. þm. geti áttað sig á því.

Hv. þm. nefndi að verið væri að færa skuldir til inn í hlutafélag, þ.e. þær væru ekki lengur á ábyrgð ríkissjóðs. Það sem skiptir að sjálfsöðgu meginmáli í því er að hér er verið að sýna fram á samkvæmt áætlunum óháðra endurskoðenda að við getum ráðið við þessar skuldir og borgað þær niður. En á undanförnum árum, alveg fram til þessa dags eða til 1998, voru þessar skuldir að safnast upp og ef það hefði haldið áfram hefði það endað á ríkissjóði, endað á skattborgurum landsins. Hér er því ekkert bara verið að færa til tölur, hér er verið að standa þannig að málum að viðkomandi fyrirtæki endurgreiði þetta allt saman. Það er náttúrlega löngu tímabært að ganga þannig frá málinu sem hafði einhverra hluta vegna verið vanrækt allt of lengi.