Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 13:52:32 (5713)

2000-03-23 13:52:32# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég og hæstv. ráðherra deilum ekkert um það að menn hafi ekki sinnt þeirri sjálfsögðu skyldu að greiða skuldir ríkissjóðs vegna skuldbindinga í Leifsstöð. En hver er ástæðan? Er ástæðan sú að fjármuni hafi vantað úr rekstri stöðvarinnar? Nei, hún er ekki sú. Hún er einfaldlega þessi: Ríkissjóður hefur tekið stóran hluta af hagnaði stöðvarinnar í almennan rekstur. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur þær tölur handbærar en ég vil samt spyrja hann um þær. Getur hæstv. ráðherra upplýst hvað ríkissjóður hefur tekið mikla peninga út úr rekstri Leifsstöðvar frá 1987 til dagsins í dag? Hefur hæstv. ráðherra upplýsingar um hvort þeir fjármunir hefðu ekki staðið undir þessum skuldbindingum, þessum áhvílandi lánum og afborgunum af þeim? Mér er nær að halda að þeir hefðu gert það.

Þessi hlutafélagavæðing er auðvitað engin hókus pókus aðferð í því að borga skuldir. Það sem einum af oddvitum ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanrrh., aðstoðarforsrh., hefði vissulega verið í sjálfsvald sett núna í fimm ár var að taka ekki peninga úr rekstri flugstöðvarinnar í ríkissjóðshítina heldur nota þá fjármuni eins og þeim ber í að borga niður skuldir. Það þarf ekkert að hlutafélagavæða sérstaklega til þess. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun oddvita ríkisstjórnarinnar hvernig sá hagnaður er notaður og eðli máls samkvæmt á að nota hann til að borga niður skuldir. Þar erum við hæstv. ráðherra sammála. Og hvort hann eða forverar hans hafi farið öðruvísi að og hann telji sig þurfa að hlutafélagavæða og sérstaklega að tryggja það að gírugur fjmrh. taki ekki þarna fjármuni og fari með þá í almennan rekstur, það veit ég ekkert um, en ég fæ ekki séð að nýir fjármunir verði til með hlutafélagavæðingunni einni og sér.