Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 13:56:22 (5715)

2000-03-23 13:56:22# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki gjörla um innanbúðarmál í utanrrn. eða hverjir hafa sérþekkingu á skóm. Hitt er annað mál að ég sé það fyrir að ný stjórn hlutafélags þurfi fyrst og síðast að halda utan um hina stærri þræði. Það verður tæpast á hennar valdi að ákvarða staðsetningu skóverslana eða umfang þeirra og hvort það eigi að vera einkaaðilar sem leigi þar pláss eða hlutafélagið sjálft sem eigi að halda þeim rekstri úti.

Við skulum undirstrika þann veruleika sem við okkur blasir að þessi hlutafélagavæðing ein og sér mun ekki skýra neitt þau vandamál sem uppi hafa verið varðandi samkeppnisatriði og álitamál í rekstri innan stöðvarinnar. Því að eftir sem áður mun verða togstreita þar á ferðinni hvort heldur það er hlutafélag í eigu ríkissjóðs eða deild í utanrrn. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra, vegna þeirra stóru skuldbindinga sem þarna eru annars vegar, muni vilja hafa fingurna í því hvernig þessi mál ganga til.

Ég sagði áðan og ég held að það sé bara þannig að ákveðið gagnsæi er í þessum málflutningi öllum. Stundum hentar að hafa pólitíska fjarlægð frá ákvörðunum svo sem varðandi forstöðumann þar syðra, og það passar núna að fá þá pólitísku fjarlægð og geta vísað til stjórnar fyrirtækisins, það er meiri pólitísk fjarlægð í því en ráðgjafarnefnd í deild utanrrn. Það skapar því ákveðinn ótrúverðugleika í nálgun þessa máls.

Og að lyktum vil ég segja þetta, herra forseti, og undirstrika það að ég leggst ekki gegn þessu þver og endilangur. En hefði ekki verið skynsamlegra að leggja þetta til í lok uppbyggingartímabilsins, þ.e. 1. mars að ári, þegar uppbyggingu væri lokið og menn sæju landið fyrir sér eins og það er en ekki á miðjum framkvæmdatíma þegar spurningarnar eru fleiri en svörin?