Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:04:36 (5719)

2000-03-23 14:04:36# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. mun beita sér fyrir því gagnvart hæstv. ráðherra, formanni sínum, að þarna verði ákveðið pólitískt jafnvægi á í stjórnarskipan. Hæstv. ráðherra hefur væntanlega hlýtt á þingmanninn sinn. (Utanrrh.: Já, já.)

Ég fagna því hins vegar líka þó ég sé ekki hissa á því að hv. þm. hefur ákveðinn skilning á afstöðu minni, þ.e. að vera með og á móti frv. Þetta hefur nú verið aðalsmerki Framsfl. og þeir þekkja þetta auðvitað mætavel. Ég segi einfaldlega að ég ætla að taka málefnalega afstöðu til þessa máls þegar öll kurl eru komin til grafar. Eins og ég rakti hér í ítarlegu máli og gæti gert nánar ef tími gæfist til eru fjöldamargar spurningar sem ekki hefur verið svarað.

Ég hef aldrei verið svo mikill ofsatrúarmaður á hlutafélagavæðingu og hvað þá einkavæðingu að orðið eitt, að hugtakið eitt nái að búa til peninga, dugi til að breyta hér nótt í dag. Ég hef aldrei verið sama sinnis og t.d. hv. þm. Pétur Blöndal í þeim efnum, af því ég sé hann hér. Ég bið hann afsökunar ef ég er að gera honum upp skoðanir.

Ég vil að rök séu færð fyrir slíkum breytingum. Þess vegna sagði ég áðan að í samkeppnisumhverfi vil ég skoða það mjög gaumgæfilega og er yfirleitt hlynntur því að ríkissjóður mæti á markaðinn undir tilteknum formerkjum. Það er ekki alveg sama hvernig það er gert. En þar sem það er ekki borðleggjandi og langt í frá að samkeppni ríki þar gildir annað. Getur hv. þm. bent mér á hvaða flugvöllur er í beinni samkeppni við Leifstöð? Er Egilsstaðaflugvöllur í beinni samkeppni við Leifsstöð? Eða Ísafjörður? Nei, auðvitað ekki. Þessi flugstöð er ein sinnar tegundar hér á landi og verður í fyrirsjáanlegri framtíð.

Maður gefur sér því að þessi lögmál séu ekki til staðar þarna. En ýmis önnur rök sem hér hafa verið tínd til kunna að gera það að verkum að þetta sé skynsamlegt. Ég ætla ekkert að útiloka það. Á hinn bóginn hefur mér ekki sýnst að sérfræðingar hæstv. ráðherra í málefnum flugstöðvarinnar, ekki endilega sendiherrar heldur líka ákveðnir sérhæfðir aðilar og með sérþekkingu, hafi nú yfirleitt verið fljótir til aðgerða. Það hefur ekki þurft að spyrja Alþingi um stórar eða litlar ákvarðanir þar syðra.

Þessir kostir hlutafélagsins hafa því verið til staðar þótt þar sé um deild í ráðuneytinu að ræða.