Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:23:25 (5725)

2000-03-23 14:23:25# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi einmitt að sú fækkun á fríhöfnum í Evrópu eða veiking á þeim, því að þær geta bara tekið þá farþega sem koma utan Evrópusvæðisins eða utan Schengen-svæðisins, veldur því að þeim fækkar og þetta gefur Fríhöfninni í Keflavík aukið tækifæri vegna þess að stór hluti af farþegum í gegnum flugvöllinn í Keflavík er ekki að koma til Íslands. Hann er að millilenda frá Ameríku til Evrópu þannig að stór hluti af rekstri Keflavíkurflugvallar er utan frá, ekki innan Schengen-svæðisins. Ég sé að þarna geti verið mikið tækifæri fyrir menn, viðskiptamenn, til framtíðar að stórauka umferð um Keflavíkurflugvöll öllum til hagsbóta, þ.e. Íslendingum.

Vissulega er það svo að hv. þm. standa ekki í rekstri alla daga og þekkja ekki rekstrarlegar forsendur. Þess vegna lagði ég til að hv. utanrmn. fengi til umræðu um þetta frv. menn sem vit hafa á þeim málum og standa í rekstri alla daga til þess að fá um það smánámskeið hvernig best er að haga þessum málum þannig að hagnaðarvonin verði sem mest og þar af leiðandi væntanlegt verð fyrir flugstöðina þegar hún verður seld.