Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:48:01 (5728)

2000-03-23 14:48:01# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki kom það mér á óvart þó að það sviði svolítið undan þessum orðum mínum um ábyrgð hæstv. forsrh. Hins vegar er alveg ljóst að ekki nokkur maður í Samfylkingunni hefur minnimáttarkennd gagnvart hæstv. forsrh.

Ég veit, herra forseti, að forsrh. ber ábyrgð á öllum málum sem ríkisstjórnin hans ber fram. Alþingismenn allir vita að hæstv. forsrh. ber ábyrgð á ríkisstjórninni og öllum málum sem eru borin fram. Þjóðin hefur ekki hugmynd um, þegar hún hlustar á fréttirnar, hvernig verkaskiptingin er og hver heldur utan um hvað. Þess vegna vil ég að árétta að utanrrh. hefur verið ágætlega bær til að halda utan um þau mál sem að honum hafa snúið. Aðrir ráðherrar Sjálfstfl. og Framsfl. hefur mér sýnst að öxluðu vel ábyrgð á sínum málaflokki. En það eru þeir, herra forseti, sem birtast sem handhafar málsins í sjónvarpi, útvarpi, í viðtölum og annars staðar.

Stundum hentar það forsrh. í ríkisstjórn, og ég minnist þess að Steingrímur Hermannsson gerði það oft, að koma líka í viðtöl út af málum sem aðrir ráðherrar voru með og láta það koma skýrt fram að þessi mál væru á hans ábyrgð. Það sem ég dreg fram í þessari umræðu, hef gert áður og á eftir að gera oft, er hvaða lag forsrh. hefur á því að koma hvergi nærri og láta líta þannig út að samstarfsflokkurinn einn beri ábyrgð á málinu. Það er þessi ásýnd sem ég er að tala um. Ég er ekki að tala um þekkingu. Ég er að tala um ásýnd og sú ásýnd er alveg skýr.