Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:03:53 (5736)

2000-03-23 15:03:53# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér er stórt spurt og ég mun því í máli mínu halda mig við að svara þeim beinu spurningum sem ég þakka hv. þm. fyrir að leggja hér fram.

Fyrst varðandi fyrstu tvær spurningarnar. Reglugerðarbreytingin um sl. áramót á að draga úr útgjöldum ríkisins sem nemur 320 millj. kr. Við breytinguna var haft að leiðarljósi að hlífa elli- og örorkulífeyrisþegum. Hlutur þessara hópa hækkaði aldrei meira en um 100 kr.

Hámarksgreiðsla fyrir lyfjaávísun annarra hópa hækkaði annars vegar um 600 kr. og hins vegar um 300 kr. fyrir svokölluð e-merkt lyf. Þá er ég að tala um hámarksgreiðslu. Hámarkshlutur sjúklings fyrir öll algengustu lyfin eru nú 3.800 kr. Hámarkshlutur þeirra sem þurfa nauðsynlega á lyfjum að halda eru 2.400 kr. og hlutur elli- og örorkulífeyrisþega verður sem sagt aldrei hærri en 1.100 kr.

Virðulegi forseti. Hefðbundin gagnrýni tiltekinna stjórnarandstæðinga á hækkanir sl. þrjú ár felst í að breyta þessum lágu krónutölum í háar prósentutölur. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega verða þær tölur þó aldrei meira en 100 kr. vegna breytingarinnar um áramót.

Þá kem ég að þriðju og fjórðu spurningu, þ.e. hvernig ráðuneytið hyggist ná fram sparnaði á þessu ári og hvort ráðherra telji raunhæft að ná þessum sparnaði fram á þessu ári eða hvort stefni í að forsendur fjárlaga standist ekki.

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrv. segir að ríkisstjórnin hafi uppi áform um að lækka lyfjaútgjöld um 1000 millj. kr. frá því sem ella hefði orðið sem gert er ráð fyrir að náist með margþættum aðgerðum í lyfjamálum á næsta ári. Svona stendur þetta í fjárlagafrv. Lyfjaverð er hér um 26% hærra en í löndunum sem við miðum okkur við. Því hefur Tryggingastofnun óskað eftir því við lyfjaverðsnefnd að verðlagning verði endurskoðuð. Unnið er að endurskoðun á reglugerð um greiðsluþátttöku og er eins gott að segja það eins og er, við verðum að grípa til sambærilegra aðgerða nú eins og við gerðum um áramót.

Í frv. til breytinga á lyfjalögum sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að sérstök nefnd ákveði hve mikið almannatryggingar greiði í nýjum, dýrum lyfjum.

Á norrænum vettvangi er unnið að sameiginlegum aðgerðum til að stemma stigu við sölumennsku lyfjafyrirtækja. Rekinn verður harður áróður til að fá lækna til að nýta sér lyfjaval sem nú þegar er staðreynd og upplýsingastarf landlæknis og TR gagnvart þeim sem skrifa lyfjaávísanir verði stóraukið. Bara þetta ætlum við að gæti skilað um 100 millj. kr. Þegar hefur verið ákveðið að styrkja lyfjamáladeild Tryggingastofnunar til að auka upplýsingastarf gagnvart læknum og draga með því úr lyfjakostnaði. Auk þess hefur verið í umræðu í heilbrrn. að draga úr kostnaði við geðdeyfðarlyf sem hefur margfaldast á 7--8 árum. Þetta yrði gert á grundvelli vandaðrar úttektar fagnefndar sem prófessor Tómas Helgason stýrði og sambærileg vinna á öðrum sviðum er í undirbúningi. Samtals erum við að tala um margþættar aðgerðir sem skila ættu um 1000 millj. kr. umfram það sem ella hefði orðið, eins og segir í fjárlagafrv. Ég vonast fastlega til að þessi markmið náist.

Síðasta spurningin er svohljóðandi: Mun hlutur sjúklings í lyfjakostnaði aukast verulega vegna áforma um þennan sparnað á árinu? Hlutur þeirra sem nota lyf mun ekki aukast verulega á árinu eins og fullyrt er í spurningunni, en hlutur þeirra mun hins vegar aukast. Það liggur fyrir. Það er óumflýjanlegt að fara aftur svipaða leið og við gerðum um áramót og þá munum við aftur sjá til þess eins og gert var um áramót að hækkun elli- og örorkulífeyrisþega verður ekki nema sem svarar til einu strætógjaldi í Reykjavík.