Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:11:21 (5738)

2000-03-23 15:11:21# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að líta á þetta mál, útgjöld ríkisins til lyfjamála, frá öðrum sjónarhóli en hv. þm. sem talað hafa hér á undan mér. Lyfjakostnaður sjúklinga er niðurgreiddur af sameiginlegum sjóðum okkar og samkomulag er um það í samfélaginu að slíkt sé gert. Hins vegar eru þetta gífurlegar upphæðir sem hér um ræðir.

En tilgangurinn með lyfjagjöf er jú að efla heilsu og heilbrigði þegnanna. Með því að greiða niður lyfjakostnaðinn erum við að viðurkenna ábyrgð samfélagsins á því að það skipti okkur öll máli að þegnarnir séu eins virkir í samfélagi manna og heilsa þeirra frekast leyfir.

Á hitt ber að líta að margar leiðir eru til að efla heilbrigði aðrar en lyfjagjöf, aðferðir sem eru ekki niðurgreiddar úr sameiginlegum sjóðum okkar eins og sállæknislegar meðferðir ýmiss konar og fjölbreyttar aðferðir við nudd sem innan heilbrigðisþjónustunnar eru viðurkenndar aðferðir til að takast á við ýmiss konar heilsubresti. Hið opinbera tekur ekki þátt í kostnaði nema við eina tegund af nuddi, hið svokallaða sjúkranudd. Það sama gildir ekki um viðurkenndar aðferðir eins og rolfing eða höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og gestalt-meðferð er heldur ekki niðurgreidd. Aðferðum af því tagi er oftar en ekki beitt áður en vandamál þegnanna eru komin á það stig að farið er að hugleiða lyfjagjafir til að takast á við vandann. Ég vil leyfa mér að efast um réttmæti þeirrar ákvörðunar að lyfjagjafir skuli njóta forgangs umfram aðrar aðferðir sem heilbrigðisstéttirnar hafa þó tök á að beita í baráttunni fyrir bættri heilsu.

Ég gagnrýni þessa áherslu á lyfjagjafirnar m.a. vegna þess að þar er oft um að ræða miklu kostnaðarsamari aðferðir en sállæknisleg meðferð eða önnur viðtalsmeðferð og ýmsar tegundir af nuddi geta nokkurn tíma orðið. Það er að mínu mati ákveðið óréttlæti fólgið í því að styðja ekki þá sem leita sér aðstoðar í sálarþrengingum sem viðurkennt er að oft leiðir til alvarlegra líkamlegra kvilla fyrr en hinar andlegu þrengingar eru komnar á það stig að hægt er að gefa út lyfseðil fyrir geðlyfjum oft með ófyrirsjáanlegum aukaverkunum.