Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:15:55 (5740)

2000-03-23 15:15:55# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Jónína Bjartmarz:

Virðulegi forseti. Hlutfallslegt söluverðmæti lyfja hefur á undanförnum árum aukist um 8--13% á ári hverju en á tímabilinu 1992--1998 jukust útgjöldin úr rúmum 5 milljörðum ísl. kr. í rúma 8 milljarða sem er um 65% miðað við verðlag á hverju ári.

Á árunum 1997--1999 jukust útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna niðurgreiðslu lyfja úr 3,6 milljörðum kr. í 4,5 milljarða en þetta svarar til 25% útgjaldaauka. Aukin lyfjaneysla sem varð, þrátt fyrir margvíslegar tilraunir til að draga úr útgjöldum, skýrir ekki þessa miklu aukningu. Á mælikvarða skilgreindra dagskammtalyfja eða DDD eins og Hagstofa Íslands mælir neysluna hefur neyslan aukist um 25% en heildarsöluverðmæti hefur aukist um 65%.

Með öðrum orðum eru það hin nýju og dýru lyf sem hækka svo mjög lyfjareikning ríkisins og gegndarlaus aukning, t.d. í geðdeyfðarlyfjum, bendir ótvírætt til að neysla þeirra hafi farið úr böndunum. Við notum mun meira af þeim lyfjum en þjóðirnar sem við helst berum okkur saman við.

Virðulegi forseti. Hér hefur komið fram að á vegum heilbr.- og trmrn. er unnið að margþættum aðgerðum sem allar hafa að markmiði að draga úr lyfjaútgjöldum án þess að íþyngja þeim sem mest þurfa á lyfjum að halda. Það þarf að endurskoða reglugerðina um greiðsluþátttöku, draga úr þessari gríðarlegu notkun geðdeyfðarlyfja og lækka reikning ríkisins vegna þeirra lyfja. Það þarf að beina upplýsingum til læknanna sem skrifa lyfseðlana og lækka álagningu á lyfjum sem er hér mun hærri heldur en annars staðar. Og það þarf að endurskoða í grundvallaratriðum hvernig og hve mikið hið opinbera á að greiða af nýjum lyfjum, svokölluðum lífstílslyfjum, eins og skilgreina má sum þeirra.

Virðulegi forseti. Ég tel að við verðum að fá lækna í lið með okkur til að ávísa jafnan á jafngóð en ódýrustu lyfin sem kostur er á. Með samstilltu átaki mundi það efla kostnaðarvitund og draga úr lyfjaneyslu í samfélaginu.