Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:24:36 (5744)

2000-03-23 15:24:36# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hefur lyfjakostnaður farið vaxandi um langt árabil og nemur á árinu 1999 9,2 milljörðum kr. Þar af eru 4,7 milljarðar hlutur ríkisins í þeim kostnaði.

Lengi hefur verið leitað leiða til að lækka þessi útgjöld. Það er innbyggð útgjaldaaukning í málaflokknum vegna nýrra og dýrra lyfja sem koma á markaðinn og heilbrigðisþjónustan hefur tekið fljótt í not vegna metnaðar síns til að veita góða þjónustu. Það er hluti af stefnumörkun sem ég hygg að samstaða sé um meðal þjóðarinnar.

Á fundi þann 15. okóber sl. fórum við í fjárln. yfir greinargerð fjárlaga um fyrirætlanir um sparnað í lyfjakostnaði fyrir árið 2000. Þar er lýst að með margþættum aðgerðum sé áformað að sporna við vexti lyfjaútgjalda og ná fram 170 millj. kr. lækkun á milli ára. Áformað sé að endurskoða heildsölu- og smásöluálagningu lyfja og ráðast í aukin útboð á lyfjum til að bæta og styrkja skynsamlegt og hagkvæmt lyfjaval, jafnt innan sem utan heilbrigðisstofnana. Þá verði áfram unnið að gerð leiðbeininga, ráðgjöf verði efld, auk þess sem gripið verði til ýmissa annarra ráða. Síðan er því lýst að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag á niðurgreiðslum almannatrygginga vegna lyfja o.s.frv.

Eins og fram kemur voru í grg. fjárlagafrv. taldar upp ýmsar leiðir til þess að lækka þennan kostnað. Það er hins vegar alveg rétt sem fram kom hjá varaformanni nefndarinnar, hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að okkur voru kynntar þessar leiðir.

Ég legg áherslu á að áfram verði unnið að þessari reglugerðarbreytingu og hún tekin í gagnið þegar hún er tilbúin. En ég legg eigi að síður áherslu á að markmiðum fjárlaga verði náð, enda hef ég ekki heyrt deilt um það í þessari umræðu að vinna beri að því með öllum tiltækum ráðum.