Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:53:35 (5751)

2000-03-23 15:53:35# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Sami misskilningur kom fram í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og kom áður fram hjá hæstv. utanrrh. Halldóri Ásgrímssyni, að menn vildu koma á því skipulagi að diplómatar, starfsmenn utanrrn., færu að afgreiða í verslunum á Keflavíkurflugvelli. Það hefur aldrei staðið til. Á Keflavíkurflugvelli, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er í eigu íslensku þjóðarinnar, er rekin margvísleg afgreiðsla, fyrirgreiðsla og búðarrekstur í einkaeign. Þetta er boðið út eða með einhverjum hætti komið til einkaaðila sem síðar reka það á sínum viðskiptaforsendum.

Þetta er hægt að gera í flugstöð sem er eign íslensku þjóðarinnar. Nú stendur til að taka þessa flugstöð með manni og mús og gera hana að hlutafélagi. Flugstöðin yrði einokunarfyrirtæki vegna þess að það er ekki valið á milli flugstöðva þegar lent er í landinu. Þú ert þar hvort sem þér líkar betur eða verr. Innan þessarar flugstöðvar geta menn hins vegar verið með margvíslegan rekstur.

Hitt er annað mál að menn deildu um það á sínum tíma hvort fríhöfnin ætti að vera á hendi ríkisins eða einkaaðila. Ýmsir telja að svo eigi að vera. Ég var einn þeirra og er enn þeirrar skoðunar að hún eigi að vera á vegum almennings, einfaldlega eðli málsins samkvæmt. Þetta er fyrst og fremst áfengisútsala þar sem ekki reynir á samkeppni en á hitt reynir að veita peningnum inn í ríkissjóð. Þeir hafa streymt þaðan milljörðum saman á liðnum árum.

Á árinu 1997, svo dæmi sé tekið nánast af handahófi, var hagnaður Fríhafnarinnar 628 millj. kr. Um þetta snýst málið en ekki hvort diplómatar afgreiði í skóverslunum í Leifsstöð. Það er útúrsnúningur.