Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:56:00 (5752)

2000-03-23 15:56:00# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hálfgerður misskilningur uppi í þessari umræðu. Það sem ég var einfaldlega að segja áðan var að ég vakti á því athygli að starfsemin sem fram fer í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli, er að langmestu leyti viðskiptalegs eðlis. Þess vegna skiptir það miklu máli að rekstrarlegt umhverfi flugstöðvarinnar sé sem líkast hinu viðskiptalega umhverfi þannig að flugstöðin geti tekið þátt í að draga til sín aukin viðskipti.

Hins vegar er alveg rétt að menn geta tekið um það ákvörðun, alveg eins og höfum áður gert, að bjóða út fleira í rekstri flugstöðvarinnar. Ég held að það hafi almennt séð verið heppilegt. Mér dettur t.d. ekki í hug að nokkur maður muni koma með þá tillögu núna að hætta þessu formi og láta reksturinn aftur í hendur ríkisins. Það er bara hið viðtekna skoðun í okkar þjóðfélagi að verslunarrekstur sé best kominn í höndum einstaklinga.

Ég er alveg sammála því að fríhafnarreksturinn, a.m.k. hvað varðar áfengi og tóbak, sé í höndum hins opinbera en að öðru leyti tel ég skynsamlegt að reyna að stíga skref fram á við.

Þetta er þó ekki kjarni málsins sem við ræðum hér um. Þá erum við að tala um eitthvað lengra í framtíðinni, um hvernig menn ætla sér að reka einstakar einingar innan flugstöðvarinnar. Við erum að tala um þessa stóru formbreytingu á þessari stofnun, sem nú er í fyrirtæki, í hlutafélag. Við sem núna stöndum að þessu erum þeirrar skoðunar að heppilegra sé, til þess að tryggja þennan mikilvæga rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, að reksturinn geti notað sér þau tæki sem hið viðskiptalega umhverfi veitir.