Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:58:16 (5753)

2000-03-23 15:58:16# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að við núverandi aðstæður og fyrirkomulag sé rekin viðskiptastarfsemi í Leifsstöð. Ekkert sem kemur í veg fyrir það enda sagði hv. þm. að um þetta gætum við tekið ákvörðun.

Spurningin er hver þessi ,,við`` erum. Alþingi Íslendinga getur nú tekið slíka ákvörðun en eftir breytinguna með þessu frv. þá er það utanrrh. einn eða þeir sem hann fær völdin í hendur. Verði stöðin seld þá er það eigenda Leifsstöðvar að taka þessa ákvörðun.

Mér fannst hv. þm. kominn í mótsögn við það sem hann sagði hér upphaflega þegar hann sagði að hann teldi að verslun með áfengi og tóbak ætti að vera á vegum opinberra aðila. Ég gat ekki skilið hann betur. Um þetta snýst málið. Að halda flughöfninni sem slíkri í eigu og undir eftirliti almennings. Sama gildi síðan um áfengissöluna, fríhöfnina, þar er aðallega selt áfengi og tóbak, eitthvað meira. Menn hafa lengi rætt hvar eigi að draga þær línur. Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti því að koma annarri viðskiptastarfsemi í hendur einkaaðila. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því þó ég hafi miklar efasemdir um að fara með áfengi og tóbak, uppistöðuna í tekjuöflun ríkisins, til einkaaðila.