Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 16:00:01 (5754)

2000-03-23 16:00:01# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það töluvert fagnaðarefni sem hv. þm. sagði í seinna andsvari sínu. Hann talaði um að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að auka hlut viðskiptalífsins í þeim rekstri sem nú fer fram innan Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ég gat a.m.k. ekki skilið hv. þm. öðruvísi en svo að hann væri fremur jákvæður fyrir því, svo ég oftúlki örugglega ekki neitt, að stærri hluti en nú er fari í hendur viðskiptalífsins og rekstur sem ríkið ber núna rekstrarlega ábyrgð á megi þess vegna minnka.

Við vitum að Fríhöfnin verslar með ýmislegt fleira en áfengi og tóbak. Þess vegna gæti þetta verið töluverð breyting sem ég mundi fagna. Þetta er samt ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er rekstur þessarar stóru stofnunar, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Við erum hér að ræða um hvernig rekstrarform hentar þessari flugstöð best til að skapa þjóðarbúinu sem mestar tekjur. Það er síðan útfærsluatriði hvort það sé gert þannig að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. reki þessa starfsemi eða bjóði hana út. Það verður þá væntanlega gert á rekstrarlegum forsendum vegna þess að til hlutafélagsins verður að gera rekstrarlega kröfu. Það þyrfti að standa skil á arði og sköttum sínum og skyldum til hins opinbera. Það gerir það ekki nema tekjurnar séu sem allra mestar fyrir hlutafélagið. Ég vildi segja hv. þm., virðulegi forseti, að málið snýst um með hvaða hætti við gerum fyrirtækið, nú stofnunina, nógu öflugt til þess að skapa sem mestar tekjur sem síðan mundu skila sér til hins opinbera.